Í fyrsta skipti í sögunni mældist hlutfall landsmanna, skráð í þjóðkirkjuna, undir 60 prósentum samkvæmt nýjum tölum hjá Þjóðskrá. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráð í þjóðkirkjuna.

Frá 1. desember 2021 hefur mest fjölgun orðið í Siðmennt eða um 6,3 prósent. Meðal þátta sem skýra fækkun er stóraukning í kaþólsku kirkjunni með vaxandi fjölda Pólverja og fleiri innflytjenda hér á landi. Þá er tæpur áratugur síðan fallið var frá að nýfædd börn væru sjálfkrafa skráð í trúfélag móður, sem oftast var þjóðkirkjan.

Pétur Georg Markan biskupsritari segir að mælingin nú hafi lítið að gera með aðskilnað ríkis og kirkju, enda hafi sá aðskilnaður í meginatriðum orðið áramótin 2020-2021 þegar þjóðkirkjan varð sjálfstæð um eigin fjárhag og innri málefni.

„Hins vegar hefur fækkun í sóknum landsins, sem halda uppi þeirri þjónustu sem fólkið í landinu nýtur í hverfum sínum, mikil áhrif á rekstur þeirra og starf. Það helgast af því að sóknargjöld dragast saman og aukast eftir skráningu í þjóðkirkjuna. Fækkun í þjóðkirkjuna hefur því áhrif á þjónustu við fólkið í landinu. Það eru mestu áhrifin,“ segir Pétur.

Biskupsembættið tekur þó þróuninni ekki af neinni léttúð að sögn biskupsritara. „Þjóðkirkjan tekur því alvarlega að það fækki í henni. Það er mín trú að þessi þróun leiti jafnvægis. Góð leið til að snúa þróuninni við, sem er sameiginlegt verkefni okkar allra sem í kirkjunni störfum, er að mæta verkefninu af auðmýkt, skilningi, og festu,“ segir Pétur. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að kjarnaerindi kirkjunnar eigi alltaf við á öllum tímum.

„Framtíð þjóðkirkjunnar er björt og framtíðarverkefnin krefjandi og spennandi.“