Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir samning ráðuneytisins við Þjóðkirkjuna til styrktar aðstandendum fanga standa.

„Hann var gerður vegna þess að þau sýna þarna frumkvæði í að sinna fólki sem er aðstandendur fanga. Þetta verkefni gengur út á að að greina stöðu þessa fólks en þau hyggjast ráða fjölskylduráðgjafa til þess að taka þetta út svo við getum áttað okkur betur á því hvers konar þjónustu við getum veitt þessum jaðarhópi. Þessu fylgja ýmis konar félagslegar áskoranir þegar einstaklingur þarf að sæta fangelsisvist,“ sagði ráðherrann í samtali við Fréttablaðið í dag.

Nafni hans, Guðmundur Ingi Þóroddsson í Afstöðu — félagi fanga, gagnrýndi ráðherrann fyrir að veita Þjóðkirkjunni fái tíu milljón króna styrk í til­rauna­verk­efni sem á að miða að því að bjóða að­stand­endum fanga upp á þjónustu, stuðning og ráð­gjöf. Sagðist hann almennt fagna því þegar aðgerðir í málefnum fanga eiga sér stað.

„Stofnanir og sveitar­fé­lög hafa á undan­förnum árum dregið úr því að blanda saman trú­málum við fag­leg störf þannig að það verður að taka undir gagn­rýni bæði Van­trúar og Sið­menntar. Það á ein­fald­lega ekki að blanda saman trú­málum og sér­fræði­þjónustu,“ sagði formaðurinn.

Aðspurður hvort til hafi staðið að veita félagi eins og Afstöðu stuðning frekar en trúfélagi sagði ráðherrann:

„Þetta er ákvörðun sem ég tók um að setja þetta í þennan farveg að þessu sinni, ekki síst vegna þess að við erum að stefna að því að það sé gerð úttekt á þessum málum svo við gerum okkur betur grein fyrir því hvaða þjónusta þarf að vera í boði fyrir fólk.“

Hann bendir á að slíkar umsóknir um styrk séu alltaf metnar í ráðuneytinu af sérfræðingum. „Þá ber þess að geta að Afstaða hefur fengið styrk frá ráðuneytinu flest undanfarin ár.“ útskýrir ráðherrann.