Þjóðkirkjan hyggst endurheimta votlendi á jörðum sínum og hefur ákveðið sjö jarðir sem byrjað verður á. Mun kirkjuráð óska eftir framkvæmdaleyfi hjá viðeigandi sveitarfélögum um þetta.

Jarðirnar sem um ræðir eru Skálholt í Biskupstungum, Mosfell í Grímsnesi, Reynivellir í Kjós, Mælifell í Skagafirði, Hof í Vopnafirði, Kolfreyjustaður í Fáskrúðsfirði og Árnes 1 í Trékyllisvík. Síðastnefnda jörðin var reyndar ekki alveg óumdeild því að kirkjuráðsmaðurinn Stefán Magnússon lagðist gegn ákvörðuninni því að fasteignahópur kirkjunnar væri með hana til sérstakrar skoðunar.

Halldór Reynisson, verkefnisstjóri umhverfismála og fyrrverandi prestur, segir jarðirnar sjö aðeins þær fyrstu sem ráðist verður í. En alls á þjóðkirkjan um 30 jarðir víðs vegar um landið.

„Við lítum á það sem okkar siðferðilegu ábyrgð að endurheimta votlendi og rækta upp skóglendi á þeim jörðum sem kirkjan á,“ segir hann. „Kirkjan átti mun fleiri jarðir hér áður fyrr en við sjáum þær jarðir sem kirkjan á enn þá sem ákveðin gæði til þess að efla umhverfið, náttúruna og hamla gegn óæskilegum breytingum á loftslagi.“

Þegar var byrjað að endurheimta votlendi í Skálholti árið 2016 að frumkvæði frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, og Þrastar Ólafssonar hagfræðings. Talið var að í Skálholti væri hægt að endurheimta 40 til 50 hektara votlendis. Á sama tíma var tekin ákvörðun um endurheimt á fleiri jörðum og það er nú loks komið í ferli og forgangsröðun.

Halldór segir verkefnið mjög umfangsmikið. Kirkjan sé í samstarfi við bæði Skógræktina og Landgræðsluna sem hafi gert frumathugun á viðkomandi jörðum. Hafi stofnanirnar bent á svæði utan hefðbundinnar nýtingar í búskap þar sem hægt sé að endurheimta votlendi, græða land og rækta skóg.

Vísar hann til skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018 þar sem talið var að jarðarbúar hefðu áratug til að snúa þróuninni við. „Við höfum tíu ár til að gera eitthvað í málunum. Þessar sjö jarðir eru aðeins byrjunin hjá okkur. Þetta er okkar framlag næstu tíu árin til að snúa þessari óheillaþróun við,“ segir Halldór.

Varðandi endurheimtina nefnir Halldór að samkvæmt nýrri skýrslu hafi Ísland fimm sinnum þyngra kolefnisfótspor en meðaltal Evrópulanda. Stærstur hluti af því fellur undir flokkinn notkun lands, sem er meðal annars framræsing og uppblástur. „Þarna sjáum við mikil tækifæri,“ segir Halldór.

En kirkjan sér ekki aðeins tækifæri til þess að bæta umhverfið heldur geti aðgerðirnar hjálpað til við fjárhaginn einnig. „Það er byrjaður að skapast markaður fyrir kolefnisbindingu og í framtíðinni sjáum við að jarðirnar geti orðið höfuðstóll kirkjunnar sem hún fjármagni sitt starf með. Þarna eru ákveðnir tekjumöguleikar,“ segir hann. En einnig að jarðirnar verði nýttar til að styrkja samfélögin í nágrenninu, þar sem fólk geti gengið um skóglendi sér til yndisauka.

F20110718-Skálholt-05.jpg

Þegar er byrjað að endurheimta votlendi á jörð Skálholts í Biskupstungum.