Stefna Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, í málefnum frumbyggja er talin geta leitt til „þjóðarmorðs“ síðustu óþekktu ættbálkanna. Nýlega var Bruno Pereira, sérfræðingi í samskiptum við frumbyggja, sagt upp fyrirvaralaust.

„Það er eins og ríkisstjórnin sé með þá stefnu að fjarlægja allt hæft fólk og koma óhæfu fólki að í staðinn,“ sagði José Carlos Meir­elles, fyrrverandi starfsmaður hjá FUNAI, stofnuninni sem sér um málefni frumbyggja. Hann er einn af þeim sem skrifuðu undir bréf sem sent var ríkisstjórninni, þar sem alvara málsins var kynnt.

Frumbyggjum, sem hafa haft lítil eða engin samskipti við umheiminn, stafar mikil ógn af skógarhöggi, námagreftri og annarri starfsemi sem raskar heimkynnum þeirra. Margir sem starfa í þessum geirum gera það ólöglega. Á þessu ári hefur verið farið inn á 153 ættbálkasvæði, samanborið við 76 í fyrra. Bolsonaro hefur beitt sér fyrir stóraukinni nýtingu á öllu Amasonsvæðinu.

Pereira hefur verið ötull baráttumaður fyrir frumbyggja og meðal annars aðstoðað þá við deilur sín á milli. Hann vildi lítið tjá sig um uppsögnina, hún væri á ábyrgð FUNAI. „Einangraðir frumbyggjar eru mjög varnarlaus hópur,“ sagði hann. „Þeir hafa ekkert pólitískt bakland og tala hvorki við blaðamenn né aðra frumbyggja.“