Ó­sáttir Píratar hafa hrundið af stað undir­skriftalista þar sem fram­ganga þeirra sem gengu hvað harðast gegn Birgittu Jóns­dóttur, á fé­lags­fundi fyrr í mánuðinum, er for­dæmd. Á um­ræddum fé­lags­fundi fór fram kosning í trúnaðar­ráð flokksins en Birgitta var til­nefnd þar. Mikill hiti var í fundar­gestum flestum og gagn­rýndu þeir, meðal annars sitjandi þing­menn, Birgittu harð­lega fyrir fram­komu hennar í þeirra garð.

„Við undir­rituð, fé­lagar í Pírötum, hörmum þá at­burða­rás sem átti sér stað á fé­lags­fundi mánu­daginn 15. júlí síðast­liðinn,“ segir í lýsingu sem fylgir undir­skriftalistanum. Fundurinn hafi verið aug­lýstur sem fé­lags­fundur en hvergi neitt staðið um per­sónu­legt upp­gjör líkt og það sem átti sér síðan stað þar.

Þing­menn Pírata og annað valda­fólk innan flokksins, sem tók til máls á fundinum, hafi farið of­fari gegn Birgittu. „Sú opin­bera að­för, óháð því hvaða stöðu um­ræddur fé­lags­maður gegndi áður og hvað kann að hafa farið aðila á milli fyrr, er með öllu ó­líðandi,“ segir enn­fremur. Fram­koman sé á­mælis­verð, engum til gagns og beri að for­dæma.

Þórólfur Júlían Dagsson og Álfheiður Eymarsdóttir koma Birgittu til varnar og skrifa undir listann.
Samsett mynd/Píratar

Í kjöl­far eld­ræðu Pírata um sam­starf þeirra við Birgittu á þeim árum sem hún sat á þingi steig hún í pontu og lét eftir­farandi orð falla: „Ég upp­lifi svona á­kveðið mann­orðsmorð hér í kvöld. Og það er ekki fal­legt.“

Tals­vert hefur verið rætt og ritað um at­burða­rásina á fundinum og hafa Píratar úr öllum áttum stigið fram og ýmist tekið undir gagn­rýnina eða komið Birgittu til varnar.

Varaþingkona og oddviti skrifa undir

Þannig sagði Sara Elísa Þórðar­dóttir, vara­þing­maður flokksins, að Birgitta væri gerandi en ekki þolandi. Undir það tók Ásta Guð­rún Helga­dóttir, fyrr­verandi þing­maður Pírata og náinn sam­starfs­maður Birgittu, sem sagði að ó­reiðan í flokknum á Birgittu­árunum hefði búið til „ein­ræðis­herra þar sem hinn frekasti fékk að ráða“.

Meðal þeirra sem skrifa undir listann eru Þór­ólfur Júlían Dags­son, odd­viti flokksins í sveitar­stjórnar­kosningum í Reykja­nes­bæ í fyrra, en fundinn um­talaða segir hann vera þann „ó­geðs­legasta“ sem hann hefur setið, Álf­heiður Eymars­dóttir, vara­þing­maður Pírata, og Sigurður Ágúst Hregg­viðs­son, gjald­keri aðildar­fé­lags Pírata á Suður­landi.

Þegar þessi frétt er skrifuð hefur á fimmta tug manns skrifað undir listann.