Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segist telja að dómaraefni sem ráðherra vilji skipa í Hæstarétt eigi að mæta fyrir Alþingi og svara þar spurningum sem allir geti fylgst með.

Þetta kemur fram í nýjasta hlaðvarpsþættinum Það skiptir máli, þar sem Jón Steinar ræðir hugmyndir sínar um úrbætur í réttarkerfinu. Nauðsynlegt sé að breyta reglum og þar séu reglur um skipan nýrra dómara efstar á blaði.

„Nú er búið að koma þeirra skipan á, með lagabreytingu sem var gerð 2010, að það eru dómararnir og dómaraelítan sem ég kalla svo, sem ræður því hverjir verða nýir dómarar í Hæstarétti til dæmis,“ segir Jón Steinar í þættinum.

Þá segir Jón Steinar að valnefnd hafi „orðið uppvís að því að raða gömlum skólabræðrum“ upp fremur en hæfari lögfræðingum. Kríteríurnar séu furðulegar og breytist frá einu ári til annars eftir því hverjir sæki um.

Fyrirkomulagið núna sé það að nefnd setji umsækjendur í efsta eða efstu sæti. Ráðherra sé þá skylt að skipa viðkomandi en ef hann vilji skipa einhvern annan að bera þá ákvörðun sína undir Alþingi. Þessu þurfi að breyta. Samkvæmt stjórnarskrá beri ráðherra ábyrgð á skipan dómara.

Jón Steinar segir að dómaraefni ráðherra ættu að mæta fyrir þingið í heild, eða að minnsta kosti fyrir þingnefnd, og svara spurningum alþingismanna um afstöðu sína til ýmissa mikilvægra þátta í meðferð réttarins.

„Til dæmis hvort heimilt sé að víkja frá stjórnarskrá, hvort heimilt sé að setja ný lög og þess háttar. Og við eigum að leyfa fjölmiðlum að fylgjast með þessari yfirheyrslu og sjónvarpa bara frá henni,“ segir Jón Steinar.

Með þessari aðferð yrði gagnsæi í skipun nýrra dómara aukið að sögn Jóns Steinars. Við núverandi fyrirkomulag viti menn ekkert um þá dómara sem skipaðir séu.

„Þeir bara skríða þarna inn í æðsta dómstól þjóðarinnar án þess að nokkur viti. Það versta sem þeir vita er ef einhver fer að hlusta á hvað þeir hafa að segja,“ segir Jón Steinar. „Við eigum ekki að láta það eftir þeim,“ undirstrikar hann.

Jón Steinar segir þessa aðferð mundu verða til mikilla bóta.

„Dómari sem hefur þurft að svara ákveðnum grundvallarspurningum áður en hann tekur til starfa, hann er miklu líklegri til þess að fara eftir því sem hann sagði við yfirheyrsluna heldur en annar sem ekkert hefur þurft að segja,“ útskýrir hæstaréttardómarinn fyrrverandi