Þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að gera sölu á vörum sem innihalda CBD (cannabidiol) eða hampjurt leyfilega í almennri sölu. Í tillögunni er Svandísi Svavarsdóttir falið að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum. Sökum þess að CBD er að finna í kannabisplöntum er það lyfseðilsgilt þrátt fyrir vera ekki vímugjafi.
Ranglega flokkað
Í tillögunni er bent á að lagaleg staða CBD á Íslandi sé óskýr og það beri að laga. „Í ljósi þess að CBD er ekki vímugjafi eru engin rök sem standa til þess að það skuli flokkað sem ávana- og fíkniefni eða lyf,“ segir í tillögunni.
Að tillögunni koma þingmenn allra flokka á Alþingi að frátöldum Vinstri grænum og Miðflokknum. Alls leggja ellefu þingmenn fram tillöguna eða þau; Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Álfheiði Eymarsdóttur, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Þór Ólafsson, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Svara eftirspurn eftir vörunni
Í tillögunni er sagt að hægt sé með einföldum hætti að vinna virka efnið CBD úr iðnaðarhampi sem inniheldur mjög lítið eða ekkert THC, sem er helsti vímuefnagjafinn í kannabisplöntum. Mörg nágrannaríki Íslands hafa farið þá leið að heimila slíka vinnslu og lausasölu á afurðunum, þegar styrkleiki THC er innan við skilgreind mörk.
„Eftirspurn eftir aðgengi að vörum sem innihalda CBD hér á landi er nú þegar talsverð. Rétt er að bregðast við þeirri eftirspurn og heimila slíkt aðgengi, enda eru engin rök sem mæla gegn því. Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga,“ segir í tillögunni að lokum.