Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Steingrím J. Sigfússon harðlega á þingi í dag, fyrir fundarstjórn hans og stuttan fyrirvara á breytingu á dagskrá þingsins. Steingrímur sendi póst á þingmenn í morgun þar sem lagt var til að þingfundur yrði lengdur vegna fundarhalda stjórnarflokkanna í hádeginu. Lagði Steingrímur til að hádegishlé þingsins yrði hálftíma lengra en dagskrá gerði ráð fyrir.

„Hann stýrir nú þessari samkomu“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hóf fyrstur máls og óskaði eftir því að ræða fundarstörf forseta þingsins. „Klukkan tíu, eða rétt fyrir tíu, sé ég tölvupóst þar sem þingforseti veltir því upp að hafa lengri þingfund í ljósi þess að einhverjir þingflokkar hafi óskað eftir þingflokkshlé, eða lengra hádegishléi.“ Segist Gunnar Bragi hafa í kjölfarið hafa sent fyrirspurn á Steingrím J Sigfússon og óskað eftir frekari skýringum á þessu og fengið þau svör að stjórnarflokkarnir hefðu óskað eftir því að fá að funda í hádeginu.

„Nú veit ég ekki hvort allir þingflokksformenn hafi séð þennan tölvupóst frá forseta og vissulega er það rétt, eins og forseti hefur oft minnt okkur á að hann stýrir nú þessari samkomu, en forseta ber líka að hafa samráð við þingflokksformenn um dagskrá þingsins,“ sagði Gunnar Bragi, sem kvaðst vera ósammála forseta Alþingis um þessa fundarboðun. „En að sjálfsögðu ræður þingforseti því, eins og öllu því sem hér gerist,“ sagði hann að lokum. 

Sagði Steingrím ekki hafa farið eftir reglum

Þá tók Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, einnig til máls og gagnrýndi þessa fundarboðun forseta Alþingis. „Ég er í raun og veru ekki meðvituð um þessar fyrirætlanir forseta fyrr en ég er komin á þingfund og þá er of seint að verða við nokkrum athugasemdum,“ sagði Þórhildur. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata tók einnig til máls og las upp úr lögum um þingsköp fyrir forseta þingsins. Sagði hann Steingrím ekki hafa farið eftir reglum við boðun breytinga á fundarhöldum dagsins, en Steingrímur sagðist sjálfur ekki ætla fara í rökræður við einn af varaforsetum sínum. 

Þá gagnrýndi Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Steingrím einnig og sagði breytinguna vera „enn eitt sporið í mynstri“ sem hann væri farinn að átta sig á. „Af hverju í ósköpunum geta þessir þingflokkar ekki bara fundað í kvöld í staðinn?“ spurði Logi.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagðist hafa fullan skilning á önnum á þingi og það væri ekki síst vegna þess að stjórnarandstaðan sæi sig knúna til að gagnrýna þessi vinnubrögð. „Það eru vissulega einhver vandkvæði í herbúðum stjórnarinnar að ákveða að klára ákveðin mál en það er kannski annar tími til þess að kasta svona fram með engum fyrirvara.“

Við annríki forseta að sakast

Steingrímur J. Sigfússon svaraði gagnrýni þingmannanna og sagði að það væri við sig einan að sakast, hann hefði setið að fundarhöldum langt fram eftir kvöldi og ekki opnað tölvupóst sinn fyrr en í morgun.

„Það er við forseta einan að sakast eða öllu heldur annríki hans,“ sagði Steingrímur.  „Það er réttmæt gagnrýni að það væri æskilegri að þessi samskipti hefðu átt sér lengri aðdraganda.“ Þá sagði Steingrímur langa hefð hafa verið fyrir því samþykkja slíkar breytingar, en hugmyndin snúist um að lengja hádegisverðarhléið um hálftíma. Kvaðst hann ekki telja það mikla ofrausn. Að lokum var kosið um hvort lengja ætti fundarhöld og þar af leiðandi hádegishlé þingfundar um hálftíma og var það samþykkt. 

Sagðist Steingrímur vera mjög þakklátur fyrir það „sem og leiðbeiningar og kennslu í þingsköpum“.