Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar og þingmaður Norðausturkjördæmis, segir fyrirhugaða lokun fangelsisins á Akureyri hafa komið sér virkilega á óvart.

Hún segir þetta ótækt og ætlar beita sér fyrir endurskoðun innan þingflokksins og ríkisstjórnarinnar.

„Þetta er afleit ráðstöfun, bæði í ljósi þess að það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum út á landi og þetta er ekki til að styrkja þetta svæði. Það munar um hvert starf,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Þórunn hefur þegar sent fyrirspurn á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um málið og reiknar með því að þingmenn kjördæmisins muni ræða málið saman á næstunni.

Fari gegn yfirlýstri stefnu

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, vonast sömuleiðis til þess að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Hann tekur undir það að lokunin fari gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda í byggðarmálum sem snúist á öðrum sviðum um að reyna að stuðla að uppbyggingu opinberrar þjónustu um allt land.

„Ég skil eiginlega ekki hvernig mönnum dettur í hug að taka þennan möguleika af heilu landsvæði og það er nú ákveðið sjónarmið líka að þeir sem þurfa að sitja sína refsingu geti gert það eins nálægt heimaslóðum sínum og hægt er.“

Vill sjá forsendurnar

Hann segist gjarnan vilja fá færi á að skoða forsendurnar sem liggi að baki ákvörðuninni.

„Ég hef grun um að þegar öllum steinum er velt við þá komi nú í ljós að þetta hafi verið mjög praktísk eining vegna samvinnunnar milli lögreglunnar og fangavarðanna að það hafi verið samlegðaráhrif af því að hafa þetta svona samtengt í sömu byggingunni,“ segir Steingrímur sem var á Akureyri þegar blaðamaður náði á honum tali.

Hann segist strax hafa fundið fyrir því að þar sé almennt illa tekið í þessa hugmynd.

„Ég vona bara að þetta verði endurmetið en auðvitað kyngir maður því ef að fyrir þessu eru málefnaleg rök sem halda en ég hef ekki séð þau enn á borði allavega.“

Finnst þér koma til greina af þinni hálfu að ræða þetta mál eitthvað við þingflokkinn eða ráðherra?

„Ég ætla ekkert nánar út í það annað en ég ætla að segja að ég geri ráð fyrir því að við þingmenn Norðausturkjördæmis verði í sambandi út af þessu og svo skulum við bara sjá til.“