Sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins skipa fjögur efstu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi en lokaniðurstöður prófkjörsins voru tilkynnt á tólfta tímanum í kvöld.

Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, skipar efsta sætið á lista flokksins eftir kvöldið en hann hlaut alls 3825 atkvæði í fyrsta sætið, af 4772 greiddum atkvæðum.

Annað sætið skipar síðan Jón Gunnarsson þar sem hann fékk 1134 atkvæði í 1. til 2. sæti og fór þar með yfir Bryndísi Haraldsdóttur, sem skipaði annað sætið eftir aðrar tölur í kjördæminu.

Bryndís skipar þar með þriðja sætið þar sem hún fékk 1616 atkvæði í 1. til 3. sæti, og er Óli Björn Kárason í fjórða sæti, þar sem hann fékk 1950 atkvæði.

Nýliðarnir í hópnum sem höfðu stefnt á sæti ofar á listanum náðu ekki þeim árangri sem vonast var eftir en Arnar Þór Jónsson skipar fimmta sætið og Sigþrúður Ármann það sjötta.

Í síðustu alþingiskosningum náði Sjálfstæðisflokkurinn fjórum mönnum inn í kjördæminu.