Full­trúa­deild Banda­ríkja­þings sam­þykkti í nótt að fara fram á það við Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkjanna, að hann beiti 25. grein stjórnar­skrárinnar til að koma Trump frá völdum.

At­kvæði féllu 223- 205 en niður­staðan mun lík­legast hafa lítil á­hrif þar sem Pence hefur sagt opin­ber­lega að hann muni ekki beita heimildinni.

Liz Chen­ey, þing­maður Repúblikana og dóttir fyrrum varaforseta Bandaríkjanna Dick Cheney, greindi frá því í gær­kvöldi að hún myndi greiða at­kvæði með því að Trump yrði vikið frá völdum. Hún sagðist hafa tekið þessa á­kvörðun eftir að stuðnings­menn Trumps réðust á Hvíta húsið.

Í yfir­lýsingu sem birtist í gær­kvöldi sagði Chen­ey að hún hafi aldrei séð for­seta Banda­ríkjanna svíkja eiðs sinn við stjórnar­skrár landsins jafn al­var­lega og Trump.

Liz Cheney þingmaður Repúblikana vill koma Trump úr embætti áður en Joe Biden tekur við 20. janúar.
Ljósmynd/AFP

Repúblikanar opnir fyrir sakfellingu

Full­trúa­deildin mun í dag greiða at­kvæði um hvort á­kæra eigi Trump fyrir em­bættis­glöp í starfi fyrir að hafa hvatt til upp­reisnar gegn Banda­ríska þinginu.

Ef Trump verður á­kærður mun öldunga­deildin fara með hlut­verk dóm­stóls í réttar­höldum yfir Trump. For­seti Hæsta­réttar Banda­ríkjanna verður í for­sæti í öldunga­deildinni á meðan á réttar­höldunum stendur.

Tvo þriðju hluta þarf til að sak­fella Trump en hann var á­kærður af full­trúa­deildinni í desember 2019 en þá sýknaður í öldunga­deildinni. Ef Trump verður á­kærður í dag verður hann fyrsti for­seti Banda­ríkjanna til að vera á­kærður fyrir embættisglöp í starfi tvisvar.

Sam­kvæmt the New York Times eru allt að 20 öldunga­deildar­þing­menn opnir fyrir því að sak­fella for­setann. Alls þarf 17 þing­menn úr Repúblikana­flokknum og alla þing­menn Demó­krata til þess að sak­fella Trump.

Kevin Mc­Cart­hy einn af leið­togum Repúblikana í full­trúa­deildinni hefur lýst því yfir að hann sé and­vígur á­kærunni. Hann ætlar hins vegar ekki að hvetja þing­menn flokksins til þess að greiða at­kvæði gegn að­gerðunum.

Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana í öldunga­deildinni, hefur lýst því yfir sam­kvæmt New York Times að hann sé hlynntur því að sakfella Trump því þannig verður auð­veldari að losa hann úr Repúblikanaflokknum.

Þjóðvarnarliðið var með mikinn viðbúnað fyrir utan Bandaríska þingið.
Ljósmynd/AFP