Þing­menn, ráð­herrar og ráðu­neytis­stjórar hlutu í kringum hundrað þúsund króna launa­hækkun í ár. Hækkunin tók gildi 1. janúar þessa árs. Þetta kemur fram á vef Vísis.

Í lok mars til­kynnti Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið að laun þjóð­kjörinna full­trúa og æðstu em­bættis­manna yrðu fryst til 1. janúar árið 2021 en til stóð að hækka laun þessa hóps 1. júlí á þessu ári. Fram kom að þessar að­gerðir væru teknar til að mæta efna­hags­legum á­hrifum heims­far­aldursins á sam­fé­lagið.

Hækkun launa­vísi­tölu fyrir árið 2018 átti sér þó stað fyrr á árinu, þar sem en þeirri hækkun var frestað um sex mánuði vegna gerð lífs­kjara­samninga. Þar með tók 6,3 prósenta hækkun launa gildi í ár.

Af­þakkaði launa­hækkun

Upp­haf­lega átti að hækka mánaðar­laun Guðna Th. Jóhannes­sonar for­seta Ís­lands um 188 þúsund krónur en em­bætti for­seta af­þakkaði téða launa­hækkun.

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, hlaut hins vegar rúm­lega 127 þúsund króna launa­hækkun og eru heildar­laun hennar þar með orðin 2.149.200 krónur.

Ráð­herrar og ráðu­neytis­stjórar hlutu yfir hundrað þúsund króna launa­hækkun og þing­menn tæp­lega 70 þúsund krónur.

Laun þjóð­kjörinna full­trúa og æðstu em­bættis­manna verða fryst til 1. janúar árið 2021 en hækka þó í sumar.

Laun um­ræddra hópa hækkuðu því um eftir­farandi:

Þing­farar­kaup hækkaði um: 69.375 krónur og eru mánaðar­laun þingmanna því 1.170.569 krónur.

For­sætis­ráð­herra hækkaði um: 127.375 krónur og eru mánaðar­laun því 2.149.200 krónur.

Aðrir ráð­herrar hækkuðu um: 115.055 krónur og eru mánaðar­laun því 1.941.328 krónur.

Ráðu­neytis­stjóri í for­sætis­ráðu­neyti hækkaði um: 114.510 krónur og eru mánaðar­laun því 1.932.203 krónur.

Aðrir ráðu­neytis­stjórar hækkuðu um: 108.701 krónur og eru mánaðar­laun því 1.834.181 krónur.

For­seta Ís­lands hefði hækkað um 188.055 krónur en þar sem hann af­þakkaði hækkunina eru mánaðar­laun hans á­fram 2.985.000 krónur.

Fréttin hefur verið uppfærð.