Mikilll titringur er nú í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna blaðamannafundar Sigurðar Inga Jóhannssonar um drög að nýrri samgönguáætlun fyrir næstu fimmtán ár, 2020 til 2024.

Hvorki ríkisstjórn né þingflokkar stjórnarflokkana hafa fengið kynningu á málinu og lásu bæði ráðherrar og aðrir stjórnarliðar um fyrirhugaðan blaðamannafund í fjölmiðlum, þeirra á meðal bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Útbreidd óánægja í báðum samstarfsflokkum

Var áætlunin birt í samráðsgátt stjórnvalda í morgun. Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að allir hafi tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar til mánaðarmóta. Virðist þetta einnig eiga við um þingmenn og ráðherra stjórnarflokkanna ólíkt því sem venjan er.

Að sögn er óánægja með vinnubrögð samgönguráðherra útbreidd í þingliði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokka Framsóknarflokksins.

Fundað í fáti í gær

Þegar þingmenn lásu um fyrirhugaða kynningu í gær upphófst töluverð rekistefna á stjórnarheimilinu og herma heimildir blaðsins að boðað hafi verið til skyndifunda með þingmönnum stjórnarflokkana um helstu þætti áætlunarinnar, auk stutts fundar í umhverfis- og samgöngunefnd síðdegis í gær.

Þessi tilraun til að bjarga málinu fyrir horn gagnvart þingmönnum stjórnarflokkanna mun hins vegar litlu hafa skilað og mikill óróleiki og óánægja er með frumhlaup ráðherra eins og heimildarmaður blaðsins kallar kynningu ráðherrans.

Þegar samgönguáætlun til næstu fimm ára var samþykkt á Alþingi í febrúar var það skilningur manna að langtímaáætlun í samgöngumálum yrði unnin í samráði. Það kom því flatt upp á stjórnarliða að lesa um fyrirhugaða kynningu ráðherra í fjölmiðlum og sjá svo endurskoðaða samgönguáætlun ráðherrans sem hvorki hefur verið rædd í ríkisstjórn né þingflokkum, á samráðsgátt stjórnvalda.

Boðar framkvæmdir fyrir 214 milljarða á sjö árum

Á blaðamannafundinum í morgun sagði Sigurður Ingi að hægt verði að „ráðast í framkvæmdir yfir 214 milljarða á næstu sjö árum, sem eru annars vegar nýjar framkvæmdir eða flýtiframkvæmdir sem eru að koma inn í pakkann.“

Meðal þess sem kynnt var á blaðamannafundi í morgun er efling almenningssamgangna með nýju kerfi sem Vegagerðin reki frá næstu áramótum. Það eigi að tengjast við bæði flug og ferjur.

Fjallað er um endurgreiðslur á flugmiðum fyrir íbúa á landsbyggðinni samkvæmt skosku leiðinni sem kosti iá bilinu 600 til 1.200 milljónir á ári.

Brýr yfir Hornafjarðarfljót og Ölfusá, vegur yfir Öxi, jarðgöng í gegnum Reynisfjall í Mýrdal, ný hvalfjarðargöng og Sundabraut eru meðal verkefna sem fjallað er um.

Á blaðamannafundinum í morgun sagði Sigurður Ingi að áætlunin geti tekið einhverjum breytingum en fari svo fyrir þingið í þinglega meðferð í næsta mánuði. „Þar sem þingmenn geta markað sín spor á áætlunina.“