Sjaldgæft er að þingmenn séu sammála um málefni á Alþingi en í dag tóku þingmenn fjögurra flokka undir það að listafólk gefi lífinu gildi með vinnu sinni og að styrkir til listafólks skili sér margfalt aftur í samfélagið. Alþingismenn ræddu frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur mennta-og menningarmálaráðherra um tímabundna fjölgun starfslauna og styrkja til listamanna.

Á tímum samkomutarkmarkanna hafa margir áttað sig á mikilvægi lista í samfélaginu. Fjölmargir sakna þess að geta horft á sýningar í leikhúsi, kíkt á tónleika eða listasýningu og listamenn hafa stytt stundir Íslendinga í faraldrinum með því að streyma sýningum í gegnum netið eða í sjónvarpi.

„Það er ekki síst á erfiðum tímum eins og þessum sem fólk áttar sig á gildi og mikilvægi listarinnar. Án listarinnar erum við nálægt því að uppfylla einungis einföldustu kröfur dýraríkisins en nú er hins vegar listin í hættu,“ Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst vill að stjórnvöld styðji betur við kvikmyndaiðnaðinn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hann sagði ánægjulegt skref að fjölga styrkjum til listamanna en að hann vildi taka stærra skref. „Við erum með listafólk sem er tilbúið að vinna. Við erum með þetta frábæra listafólk á öllum þessum mismunandi sviðum, hvort sem það eru hönnuðir eða myndlistarfólk, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarfólk, tónskáld. Við höfum allt þetta frábæra fólk en það vantar vettvang og vinnu og tækifæri til að lifa á sinni list.“

Lagði hann til þess að hækka listamannalaun upp í 650 þúsund krónur og að hækka endurgreiðsluhlutfall úr 25 prósentum upp í 35 prósent fyrir kvikmynd- og sjónvarpsgeirann.

Skáldin okkar skrifa fyrir minnsta málsvæði heims

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokks, sagðist styðja aukið framlag til listamanna og sagðist miður sín að umræða um listamannalaun á kommentakerfum væru stundum neikvæð.

„Hávær minnihluti í athugasemdakerfi samfélagsmiðlanna má ekki stjórna umræðunni og á ekki að gera það. Þeim fjármunum sem ríkissjóður ver í listamannalaun er skilað til baka með margvíslegum hætti. Það myndast störf í kringum listirnar. Höfum það hugfast og gleymum því ekki,“ sagði Birgir og ítrekaði mikilvægi íslenskra lista fyrir íslenska tungu.

„Gleymum því ekki að íslenskir höfundar skrifa fyrir eitt minnsta málsvæði í veröldinni. Hlutverk þeirra er mjög mikilvægt fyrir íslenska tungu sem hefur átt undir högg að sækja eins og við þekkjum.“

Sagði hann listir og menningu hafa einnig jákvæð áhrif í samfélaginu sem mælist ekki í hagvexti. Sagði hann listamannalaun ekki vera einu leiðina til að styðja við greinina en skattaívalnir gætu verið jákvæð leið. „Tónlistarmenn hafa stytt okkur stundir á skjánum og er það ómetanlegt í þeirri einangrun sem margir hverjir búa við vegna faraldursins.“

Suður-kóreska sveitin BTS á tónleikum við Times Square.
Fréttablaðið/Getty images

Tónlist sem útflutningsvara

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, bætti við í umræðuna að honum þætti orðið listamannalaun vera rangnefni. „Þetta eru einfaldlega nýsköpunarstyrkir á sviði lista,“ sagði hann og benti á að það væri sama ferli um eftirfylgni og uppsetningu að sækja um þessa styrki líkt og fyrir nýsköpunarstyrki fyrir til dæmis tækniþróun.

Sagði hann mikilvægt að vanmeta ekki áhrif lista og nefndi sem dæmi Suður-Kóreu, sem hefur umturnað sínum efnahagi sínum með því að gera tónlist að útflutningsvöru. Lilja sagðist sjálf hafa uppgötvað K-pop fyrir 25 árum sem nemandi í Suður-Kóreu. Það hafi greinilega tekist vel að umbylta tónlistariðnaðinum í Suður-Kóreu með samspili stjórnvalda og atvinnulífsins.

„Margt hefur tekist frábærlega hjá þeim, annað ekki eins vel en þá skorti kannski meiri fjölbreytileika varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki. En ég hef alltaf haft gaman af því að líta til austurs af því þeir eru býsna góðir í þessu.“