Al­þingis­menn flugu alls 954 sinnum bæði innan-og utan­lands í fyrra að því er fram kemur á vef RÚV. Alls fóru þing­menn í 527 flug­ferðir innan­lands og 382 ferðir til út­landa vegna vinnu sinnar en ferðir ráð­herra eru ekki í tölunum. Mikil umræða hefur skapast um flugferðir í tengslum við losun koltvísírings og hnattræna hlýnun að undanförnu.

Lilja Raf­n­ey Magnús­dóttir, þing­maður Vinstri grænna í Norð­vestur­kjör­dæmi, flaug lang­mest allra þing­manna innan­lands en lög­heimili hennar er á Suður­eyri og er kostnaður vegna flug­ferða hennar rúmar 2,2 milljónir. Tekið er fram að Lilja hafi tvisvar fengið endur­greiddan reikning upp á 208.000 krónur, fyrir mis­tök. Tæp­lega átta­tíu prósent ferða þing­manna innan­lands voru ferðir þing­manna Norð­vestur-og Norð­austur­kjör­dæma milli heimilis og þings.

Þá flugu þeir Berg­þór Óla­son og Sigurður Páll Jóns­son, þing­menn Mið­flokksins, minnst allra þing­manna kjör­dæmisins eða fyrir rúmar 22.000 krónur á mann en alls kostuðu flug­ferðir þing­manna kjör­dæmisins rúmar 3,1 milljónir króna.

Í Norð­austur­kjör­dæmi flugu Njáll Trausti Frið­berts­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og Albert­ína Frið­björg Elías­dóttir, þing­maður Sam­fylkinarinnar, mest eða fyrir rúma eina og hálfa milljón króna. Bæði eru þau með lög­heimili á Akur­eyri. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son flaug hins­vegar minnst eða fyrir 66.000 krónur en hann er með lög­heimili í Garða­bæ. Þing­menn Norð­austur­kjör­dæmis flugu innan­lands fyrir 10,4 milljónir króna í fyrra.

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­maður VG og vara­for­maður utan­ríkis­mála­nefndar, flaug mest til út­landa af þing­mönnum. Hún flaug fyrir 1,2 milljónir króna. Á efitr henni kemur Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis en hann flaug fyrir 895.000 krónur. Þing­menn í utan­ríkis­mála­nefndinni ferðast jafnan mikið. Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, for­maður nefndarinnar flaug fyrir 880.000 krónur en Logi Már Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar flaug minnst fyrir tæpar 300.000 krónur.