Útlendingastofnun neitar að afhenda Alþingi upplýsingar um umsóknir um ríkisborgararétt, þrátt fyrir lagaskyldu og ítrekaðar beiðnir allsherjar- og menntamálanefndar.

Hver fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefndar á fætur öðrum, kom í ræðustól Alþingis við upphaf þingfundar í dag og skoraði á forseta þingsins að beita sér í málinu.

Það fyrirkomulag hefur verið við líði við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem beint er til Alþingis, að þær fara í gegnum Útlendingastofnun sem tekur þær saman ásamt öðrum upplýsingum og sendir Alþingi til afgreiðslu. Stóð til að gera þetta núna rétt fyrir jólin líkt en eins og Fréttablaðið greindi frá varð ekki af því að veitti Alþingi ríkisborgararétt fyrir jól, eins og venjan er, vegna þess að gögnin komu ekki frá Útlendingastofnun.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar og lýsti samskiptum allsherjar- og menntamálanefndar við stofnunina.

„Vegna tregðu Útlendingastofnunar til þess að afhenda gögnin fór allsherjar- og menntamálanefnd fram á afhendingu þeirra, með vísan til 51. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kveður á um skýra skyldu stjórnvalda til að verða við slíkri beiðni þingnefndar,“ sagði Arndís Anna í ræðustól þingsins og bætti við:

„Hefur stofnunin nú í þriðja sinn sýnt þinginu þá vanvirðingu að lýsa því yfir að hún muni ekki afhenda þinginu umbeðin gögn og upplýsingar, að sögn, samkvæmt fyrirmælum ráðherra.“

Arndís fór svo fram á liðsinni forseta í málinu:

„Ég fer því fram á að forseti standi vörð um virðingu Alþingis Íslendinga og gangi á eftir því að stjórnvöld sinni lögbundinni skyldu sinni til að afhenda þinginu gögn og upplýsingar sem óskað hefur verið eftir með vísan til laga um þingsköp Alþingis.“

Alger samstaða um gagnrýnina

Fjölmargir aðrir þingmenn tóku undir með Arndísi Önnu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar steig í ræðustól og sagði samstöðu um það í allri allsherjarnefndinni að framkoma Útlendingastofnunar sé óboðleg.

Undir gagnrýnina tóku meðal annarra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Helga Vala Helgadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson þingmenn Samfylkingarinnar auk nokkurra þingmanna Pírata.

Þingmenn Vinstri grænna tóku einnig til máls.

Þannig sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, þetta framferði algerlega óboðlegt.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir þetta óboðlega framkomu.
Fréttablaðið/ERNIR

„Mér finnst það alveg fráleitt. Það eru lög og eftir þeim eigum við að fara. Ég hef setið í þessari undirnefnd sem fjallað hefur um þessi mál um ríkisborgararétt og eins og hér hefur komið fram þá hefur verið reynt að breyta verklaginu og það má vel vera að því þurfi að breyta. En það gerist ekki einhliða í dómsmálaráðuneytinu, það gerist í meðförum þingsins og þess vegna verður hæstvirtur dómsmálaráðherra að hlutast til um það að Alþingi fái þessi gögn til að klára sína vinnu,“ sagði Bjarkeyog bætti við:

„Þetta er algerlega ófært og ólýðræðislegt. Við getum ekki látið koma svona fram við okkur af hálfu framkvæmdarvaldsins.“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lýsti samskiptum stofnunarinnar við þingið á undanförnum kjörtímabilum.
Fréttablaðið/ERNIR.

Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata sat tvö síðustu kjörtímabil í undirnefnd þingsins sem fjallar um umsóknir um ríkisborgararétt. Hann lýsti samskiptum nefndarinnar við Útlendingastofnunar svona:

„Þá reyndi stofnunin með liðsinni ráðuneytisins ítrekað að breyta verklagi með góðu eða illu skyldi breyta verklagi þannig að hún þyrfti ekki að standa í því að afgreiða jafn margar umsóknir til Alþingis og raun bar vitni. Nú háttaði svo til við upphaf þessa kjörtímabils að nýliðar skipuðu allsherjar- og menntamálanefnd að mestu leyti og þeim var talin trú um að það hefði orðið sammæli á síðasta kjörtímabili um breytt verklag, það verklag sem stofnunin er núna einhliða búin að ákveða að beita. Ég er hér kominn, frú forseti, til að segja að þetta er lygi. Það er lygi hjá Útlendingastofnun að allsherjar- og menntamálanefnd hafi samþykkt það verklag sem hún lagði fram. 2018 gerðum það aldrei. Ekki einn einasti þingmaður, hvorki stjórnar né stjórnarandstöðu á þeim tíma, samþykkti að Útlendingastofnun myndi hunsa lögboðin verkefni sitt gagnvart ríkisborgararétti. Hún heldur því fram, fær það ekki samþykkt en gerir þetta samt svona. Hvað er það, frú forseti? Ekkert annað en gríðarleg vanvirðing við Alþingi.“

Forseti mun koma á samtali

Þá kvaddi Bjarni Benediktsson sér í umræðuna en þó ekki um framferði Útlendingastofnunar heldur um þá skoðun að það sé í raun óeðlilegt hversu hátt hlutfall veitinga ríkisborgararéttar fari fram með lögum frá Alþingi.  Alþingi afgreiði umsóknir um ríkisborgararétt.

Líneik Anna Sævarsdóttir, sem situr á forsetastóli í umræðunni, sagði að forseti muni beita sér fyrir því að það fari fram samtal milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um þetta mál sem hér er til umræðu, um samskipti Útlendingastofnunar og allsherjar- og menntamálanefndar.