Umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum og þingmenn bregðast nú við nýjustu afhjúpun Stundarinnar og Kjarnans, þar sem tölvupóstar úr „skæruliðadeild“ Samherja eru birtir.

Þar er varpað ljósi á skipulagðar ófrægingarherferðir sjávarútvegsfyrirtækisins í kjölfar umfjöllunar Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um kvótabrask fyrirtækisins í Namíbíu.

Í út­tekt sem birtist á Stundinni og í Kjarnanum í morgun er greint frá því að tveir ein­staklingar sem störfuðu fyrir sjávar­út­vegs­fyrir­tækið Sam­herja hafi skrifað og rit­stýrt greinum til varnar fyrir­tækinu sem birtar voru undir nafni Páls Stein­gríms­sonar, skip­stjóra Sam­herja. Um er að ræða al­manna­tengilinn Þor­björn Þórðar­son, sem ráðinn var af Sam­herja sem utan­að­komandi ráð­gjafi eftir að Sam­herja­skjölin voru af­hjúpuð, og lög­manninn Örnu Bryn­dísi McClu­re Bald­vins­dóttur, sem er einn lykil­starfs­maður út­gerðarinnar.

Þorbjörn Þórðarson almannatengill, Arna Bryndís Baldvins MacClure lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri: Þríeykið í miðpunkti umfjöllunar Stundarinnar og Kjarnans.
Fréttablaðið/samsett mynd

Hallgrímur Helgason spyr Samherja hvar Teslan sé en í greinum Stundarinnar kemur fram að aðili á vegum Samherja hafi njósnað um rithöfundinn til að ganga úr skugga um hvort hann ætti bílinn sem hafði verið lagt fyrir utan.

Stundin hefur það eftir tölvupóstsamskiptum milli Þorbjörns og Pál, að þeir hafi ætlað að svara grein sem Hallgrímur skrifaði um Samherja og spyrja hvort hann hafi „farið í neðstu skúffuna og fundið samviskuna sína eins og Jóhannes, og ætli að skila öllum listamannalaununum sem hann hefur þegið í gegnum árin, fengið samviskubit eftir að hafa bónað Tesluna sína.“

En svo kom í ljós að Teslan var í eigu nágrannans, svo ekkert varð af svarinu.

Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa brugðist við fréttunum en ekki hafa margir þingmenn tjáð sig um fregnirnar á samfélagsmiðlum. Ekkert orð hefur heyrst frá ráðherrum.

Björn Leví og Guðmundur Andri.
Fréttablaðið/samsett mynd

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði umfjöllun dagsins koma honum ekkert á óvart. Segir hann viðeigandi að kalla Þorbjörn Þórðarson, almannatengil Samherja, „siðleysisráðgjafa.“

„Einhvern sem kemur inn í gersamlega rotið umhverfi bara til þess að reyna að snúa almenningsáliti - algerlega óháð því hvað er satt og rétt í málinu. Þegar utanaðkomandi fólk kemur inn í svona mál og ætti að sjá lögleysuna sem er í gangi - enda með menntunina til þess - ætti að koma því til skila til þar til bærra yfirvalda. Ekki satt? Nei, í staðinn er farið í mann[m]orðsherferð. Ekkert er heilagt og allt er vopn,“ skrifar Björn Leví.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að Samherja hefði verið nær að líta í eigin barm frekar en að snuðra á annarra manna lóðum.

„Það er góð regla að standa sjálfur við það sem maður skrifar, ekki síst þegar um er að ræða árásir á fjölmiðla og fréttamenn sem greint hafa frá starfsemi manns. Allt er þetta einkennilega lítilfjörlegt og skrýtið til þess að hugsa að þrautskipulagt hópstarf margra hálaunaðra lögfræðinga skuli búa að baki þeim greinum sem Páll skipstjóri er skrifaður fyrir.“

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, segir greinarnar vera skyldulesningu.