Önnur umferð þingkosninga stendur nú yfir í Frakklandi. Þingmeirihluti kosningabandalags Emmanuels Macron Frakklandsforseta, sem náði endurkjöri í síðasta mánuði, er í húfi í kosningunum þar sem bandalag hans hafði aðeins næfurþunnt forskot í fyrri umferðinni. Ef bandamenn Macrons ná ekki meirihluta á þingi mun það erfiða honum mjög að reka stefnu sína á öðru kjörtímabili sínu næstu fimm árin.

Þingkosningar í Frakklandi fara fram í tveimur umferðum. Fyrirkomulagið er þannig að kallað er til annarrar umferðar í hverju kjördæmi ef enginn frambjóðandi fær hreinan meirihluta, en í seinni umferð er kosið milli þeirra frambjóðenda sem fengu minnst 12,5 prósent atkvæða í þeirri fyrri. Sá frambjóðandi er kjörinn sem fær flest atkvæði í seinni umferðinni, óháð því hvort hann fær hreinan meirihluta atkvæða.

Í fyrri umferðinni fékk kosningabandalag Macrons 25,75 prósent atkvæða og var aðeins hársbreidd á undan bandalagi vinstriflokka sem leitt er af Jean-Luc Mélenchon. Mélenchon, sem leiðir róttæka vinstriflokkinn Óbugað Frakkland, lenti í þriðja sæti í fyrri umferð forsetakosninganna á eftir Macron og Marine Le Pen, en hefur nú gert bandalag við Sósíalistaflokkinn, Kommúnistaflokkinn og flokk umhverfissinna fyrir þingkosningarnar. Sósíalistaflokkurinn, hinn hefðbundni miðvinstriflokkur franskra stjórnmála, galt afhroð í forsetakosningunum í apríl.

Jean-Luc Mélenchon missti af forsetastólnum en vonast nú eftir því að verða forsætisráðherra.
Mynd/Getty

Mélenchon vonast til þess að með meirihluta á þingi geti hann neytt Macron til að skipa sig í embætti forsætisráðherra. „Sambúðir“ (fr. cohabitation) af þessu tagi, þar sem forsetinn og forsætisráðherrann eru hvor úr sínum stjórnmálaflokki, hafa þrisvar áður orðið til í Frakklandi eftir þingkosningar.

Bandamenn Macrons hafa brugðist ókvæða við möguleikanum á „sambúð“ milli Macrons og Mélenchons og hafa varað við því að ef forsetinn heldur ekki meirihluta á þingi muni það leiða til „glundroða“ og „stjórnleysis.“

Um hádegi höfðu 18,99 prósent franskra kjósenda greitt atkvæði í kosningunum, litlu meira en í fyrri umferðinni fyrir viku.