Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi þingvetur hefur verið birt. Stefnt er því að ljúka heildarendurskoðun fjölda lagabálka á þessum síðasta þingvetri kjörtímabilsins. Frumvarp til nýrra jafnréttislaga verður lagt fram strax í þessum mánuði og sömuleiðis frumvarp til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof, auk nokkurra frumvarpa á sviði barnamála, þar á meðal til nýrra heildarlaga um barnavernd.

Í janúar mun fjármálaráðherra mæla fyrir nýjum heildarlögum um skipan opinberra framkvæmda og fasteignaumsýslu ríkisins, auk endurskoðunar á lagaákvæðum um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkisábyrgðir sem koma á til þingsins eftir áramót.

Fjölmargar breytingar eru fyrirhugaðar á lögum tengdum refsivörslukerfinu. Heilbrigðisráðherra hyggst efna loforð sitt um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta og dómsmálaráðherra mun mæla fyrir breytingum á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, þar á meðal um umsáturseinelti, kynferðislega friðhelgi og bann við töku og birtingu á nærgöngulu og kynferðislegu efni. Endurskoða á ákvæði um mansal, þyngja refsingar fyrir kynþáttafordóma og fleira.

Bregðast á við dómum MDE um tvöfalda refsingu

Þá er stefnt að því að bæta réttarstöðu brotaþola í refsivörslukerfinu, endurskoða ákvæði um bætur fyrir ólöglega handtöku og sambærilegar íþyngjandi ráðstafanir og tryggja betur eftirlit með störfum lögreglu. Einnig er stefnt að því að endurskoða lagaákvæði til samræmis við dóma Mannréttindadómstólsins um tvöfalda refsingu í skattamálum.

Forsætisráðherra hyggst leggja fram þrjú frumvörp um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, sem kveða meðal annars á um að varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum verði einungis heimilar af heilsufarslegum ástæðum og 15 ára ungmenni megi breyta skráningu á kyni.

Dómsmálaráðherra boðar einnig frumvarp um útvíkkun á kæruleiðum til Hæstaréttar auk annarra breytinga á lögum um dómstóla og lögum um lögmenn. Þar á meðal um endurmenntun, námsleyfi og notkun fjarfundabúnaðar við meðferð dómsmála.

Kæruleiðum til Hæstaréttar verði fjölgað

Dómsmálaráðherra hyggst einnig leggja fram frumvarp um útvíkkun á kæruleiðum til Hæstaréttar auk annarra breytinga á lögum um dómstóla og lögum um lögmenn. Þar á meðal um endurmenntun lögmanna, námsleyfi dómara og notkun fjarfundabúnaðar við meðferð dómsmála.

Heimsfaraldurinn setur svip á þingmálaskrána en þar er meðal annars vikið að endurskoðun laga um almannavarnir og sóttvarnalaga. Heilbrigðisráðherra mun einnig mæla fyrir tillögu um að sett verði á fót landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu.

Ný skipalög og heildarlög um áhafnir skipa eru á þingmálaskránni, auk nýrra sérlaga um flugvelli og nýrra heildarlaga um loftferðir. Þá verður frumvarp um heildarendurskoðun fjarskiptalaga endurflutt.

Kunnugleg mál

Á þingmálaskránni eru einnig kunnugleg mál eins og fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra, endurskoðun mannanafnalaga og áfengismál dómsmálaráðherra. Leigubílafrumvarpið verður flutt aftur og sömuleiðis mál umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð.

Útlendingamál aftur á dagskrá

Á málaskrá dómsmálaráðherra er einnig frumvarp um breytingu á útlendingalögum, sem mætti töluverðri andstöðu á síðasta þingi. Í þingmálaskránni segir að með því eigi að "auka skilvirkni í afgreiðslu mála svo stytta megi málsmeðferðartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd til hagsbóta." Þá segir einnig að lagðar verði til breytingar á ákvæðum laganna um dvalarleyfi og atvinnuréttindi útlendinga.