Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hefur lagt inn fyrirspurn til dómsmálaráðherra um hvort nýútskrifaðir lögreglumenn gangi í lögregluna og sérstaklega hvort konur geri það.

„Það hefur verið talað um að konur hætti frekar í lögreglunni. Að þær fari í lögregluna í eitt eða tvö ár en haldi svo í önnur störf, sérstaklega á þeim tíma þegar atvinnuleysi var ekki hátt,“ segir Karl Gauti sem sjálfur var skólastjóri Lögregluskólans árin 2014 til 2017, áður en náminu var breytt og það flutt til Háskólans á Akureyri.

Karl Gauti segir ásókn kvenna í lögreglunámið sjálft síst minni en karla og þegar hann hafi verið skólastjóri hafi kynjahlutfall nemenda verið hnífjafnt. Hann segist ekki beint hafa áhyggjur af stöðunni en nauðsynlegt sé að komast að því hvort þær skili sér jafn vel í störfin og karlar.

Karl Gauti hefur áður sent inn nokkrar fyrirspurnir um lögreglumál, meðal annars um hvort nemar skili sér til embættanna, sem þeir hafa flestir gert hingað til.

Með fyrirspurnunum segir Karl Gauti fást betri innsýn í hvernig breytingin á náminu hafi gengið. Hann hafi heyrt ánægjuraddir og söknuð eftir gamla skólanum.

Meðal þess sem Landssamband lögreglumanna, lögreglumenn og lögreglunemar hafa gagnrýnt hið nýja nám fyrir er skortur á starfsreynslu og kennslu á LÖKE tölvukerfi lögreglunnar. Námið sé of fræðilegt og undirbúi nemendur ekki nægilega vel undir kaldan veruleika lögreglustarfa.

Rektor Háskólans á Akureyri hefur hins vegar bent á að námið sé í stöðugri þróun.