Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, þarf að greiða danska innheimtufyrirtækinu Lowell Danmark A/S um 65.000 danskar krónur af skuld sinni við fyrirtækið. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Fjárhæðin er um 10 prósent af heildarskuld Önnu Kolbrúnar við fyrirtækið en þingmaðurinn fór fram á að skuldin yrði felld niður.

Málið snerist um greiðslur af húsnæðisláni sem Anna Kolbrún tók ytra í kringum aldamótin frá Fionia Bank. Þingmaðurinn, sem síðar seldi eignina, gerði sátt við bankann árið 2006, um að hún myndi greiða ákveðna fjárhæð af láninu mánaðarlega. Þegar tiltekin upphæð hefði verið greidd þá yrðu eftirstöðvarnar felldar niður.

Málið flæktist þegar Fionia Bank fór í þrot á hrunárunum. Að endingu eignaðist innheimtufyrirtækið Lowell kröfuna á hendur Önnu Kolbrúnu.
Fbl_Megin: Málsvörn þingmannsins fólst í stuttu máli í því að erfitt hafi verið að koma greiðslum til skila í Danmörku á meðan rekstur Fionia Bank var í uppnámi. Anna Kolbrún greiddi af láninu fram til ársins 2009 og óreglulega fram til ársins 2014.

Þegar Lowell Danmark A/S eignaðist síðan kröfuna, hafi innheimtufyrirtækið krafist þess að öll upphæðin yrði greidd, vegna meintra vanefnda á áðurnefndu samkomulagi. Sáttaviðræður báru ekki árangur og því fór málið fyrir dóm.

Katrín Smári Ólafsdóttir, lögmaður Lowell Danmark A/S, segir niðurstöðu málsins hafa komið umbjóðanda sínum á óvart. „Ég tel allar líkur á því að málinu verði áfrýjað til Landsréttar,“ sagði Katrín Smári.