Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segist ekki lengur geta orða bundist vegna framgöngu Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra sem hann segir fara um landið „með friðlýsingasprotann í skjóli nætur og friðlýsir út og suður, án alls samráðs og faglegs undirbúnings.“
Í færslu sem Vilhjálmur birti á Facebook í kvöld og hefst á orðunum „Ólöglegt og siðlaust“ gagnrýnir hann umhverfisráðherra harðlega. Vilhjálmur segist eiga bæði við stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar. Þar sem ráðherra hafi ekki komist hjá því að ræða við sveitarstjórnir bjóði hann framtíðarstörf fyrir landverði til frambúðar.
Meðal þeirra sem líkar við færsluna eru tveir félagar Vilhjálms í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þeir Brynjar Níelsson og Ásmundur Friðriksson.

Umhverfisráðherra er ekki einu sinni kjörinn Alþingismaður
„Hann hefur ekkert fjárveitingarvald né löggjafarvald, en umhverfisráðherra er ekki einu sinni kjörinn Alþingismaður,“ skrifar Vilhjálmur. Guðmundur Ingi er oddviti Vinstri grænna í Suðurvesturkjördæmi í Alþingiskosningum á laugardag en sat sem ráðherra utan þings á kjörtímabilinu.
Dómsmál vegna friðlýsinga
Vilhjálmur segir það ekki standast lög að á grundvelli rammaáætlunar séu vatnasvið friðlýst. Það sé Alþingis að skilgreina hvaða svæði eigi að friðlýsa í samræmi við rammaáætlun sem ekki hafi verið gert.
„Þess ber að geta að vegna friðlýsingar á Jökulsá á Fjöllum er dómsmál í gangi út af þessum ólöglega gjörningi. Þá hafa sveitastjórnarfulltrúar í Bláskógabyggð og víðar mótmælt því harðlega að heilu vatnasviðin séu friðlýst í stað einungis hvers virkjanakosts fyrir sig.“

Auk þess segir þingmaðurinn að það sé ólöglegt að stækka Vatnajökulsþjóðgarð, „án alls samráðs við sveitastjórnir í nágrenninu, eðlilegs undirbúnings innan stjórnsýslunnar með kostnaðarmati, hnitsettum kortum og að ég tali nú ekki um að klára frágang og fjármögnun á fyrri stækkunum.“
Það sé óeðlilegt að mögulegt sé að gera svæði að þjóðgarði með því að breyta reglugerðum, samkvæmt náttúruverndarlögum þurfi friðlýsing að fara í gegnum stjórnsýslumeðferð.
„Þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að bjóða almenningi uppá með okkar mikilvæga land. Þarna er alveg skautað fram hjá lýðræðinu og almennum mannasiðum í samskiptum og samstarfi,“ segir Vilhjálmur að lokum.