Tom Reed, full­trúa­deildar­þing­maður Repúblikana fyrir New York-ríki, mun ekki sækjast eftir endur­kjöri í næstu kosningum en á­kvörðun hans kemur í kjöl­far á­sakana um kyn­ferðis­lega á­reitni. Þetta kemur fram í frétt AP frétta­stofunnar um málið.

Reed greindi frá því í síðasta mánuði að hann væri al­var­lega að í­huga að bjóða sig fram til ríkis­stjóra New York-ríkis en hann var einn af þeim sem hafði kallað eftir því að Andrew Cu­omo myndi segja af sér vegna ýmissa á­sakana, meðal annars um kyn­ferðis­lega á­reitni.

Baðst afsökunar

Á­sakanirnar gegn Reed litu dagsins ljós fyrir helgi þar sem kona að nafni Nicolette Davis sakaði Reed um að strjúka á sér bakið og læri og losa um brjósta­haldara hennar þegar hún starfaði sem hags­muna­full­trúi fyrir trygginga­fyrir­tæki árið 2017.

Davis greindi frá því í sam­tali við Was­hington Post að um­rætt at­vik hafi átt sér stað á bar í Minnea­polis og að Reed hafi verið drukkinn. Hún hafi verið stjörf og beðið aðra sem sátu við hlið hennar um hjálp.

Reed bað bæði Davis og fjöl­skyldu sína af­sökunar vegna málsins í gær en fyrir helgi sagði hann á­sakanirnar ekki sannar. Í yfir­lýsingu sem hann sendi frá sér í gær sagði hann aftur á móti að hann hafi verið að glíma við vanda­mál á þeim tíma sem at­vikið átti sér stað og sama ár hafi hann á­kveðið að leita sér hjálpar vegna á­fengis­vanda.