Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór hörðum orðum um Gísla Martein Baldursson dagskrárgerðarmann Vikunnar á Ríkisútvarpinu í þingræðu rétt í þessu undir liðnum Störf þingsins.

Þar ræddi þingmaðurinn mál sem verið hefur til umfjöllunar þegar Ilmur Kristjánsdóttir leikkona sagði það hafa verið áramótaheit að leika vonda konu og virtist eiga við forstjóra Útlendingastofnunar. Ummælin virtust falla í glensi eða hálfkæringi en Ásmundi er ekki skemmt.

„Hvers eiga börnin og starfsmenn ríkisins að gjalda?“ Spurði Ásmundur í pontu og taldi að enginn gæti varist glósum Gísla Marteins.

„Þarna var ráðist með grófum hætti að starfsheiðri ríkisstarfsmanns,“ sagði Ásmundur ennfremur og lét ekki duga að hnýta í RÚV og Gísla Martein heldur einnig Pírata sem hafi viðurkennt að hafa rofið trúnað á Alþingi.

Þegar þingforseti atyrti Ásmund og bað hann að gæta ummæla gagnavrt fjarstöddum einstaklingum svaraði Ásmundur að Gísli Marteinn mætti einnig athuga hið sama.