Þingmaður breska Íhaldsflokksins hefur verið handtekinn, grunaður um nauðgun og kynferðisbrot. Bresku götublöðin greina frá þessu.

The Sun hefur til að mynda eftir Scotland Yard-lögreglunni að maður sé grunaður um kynferðisbrot, nauðgun og önnur brot. Umrædd brot eiga að hafa átt sér stað árið 2002 og 2009 í London, en rannsókn á málunum hófst árið 2020.

Íhaldsflokkurinn hefur meinað manninum að sinna störfum sínum á meðan málið er í rannsókn. Þetta var staðfest af flokksverði (e. whip) Íhaldsflokksins, sem bætti við að flokkurinn myndi ekki tjá sig frekar um málið fyrr en rannsókn á því væri lokið.

Umræddur þingmaður er ónafngreindur í breskum fjölmiðlum að svo stöddu.

Málið er ekki það fyrsta af þessu tagi hjá Íhaldsflokknum, en tveir þingmenn flokksins hafa verið til umfjöllunar að undanförnu. Imran Ahmad Khan sagði af sér á dögunum eftir að hann var dæmdur fyrir að brjóta á dreng á táningsaldri. Og þá steig David Warburton til hliðar í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni.