Jozsef Szajer, þingmaður Ungverjalands í Evrópuþinginu hefur sagt af sér embætti eftir að hann var gripinn í 25 manna kynlífsveislu í Brussel á föstudaginn. Þetta kemur fram í The Brussel Times en veislan braut reglur um fjöldatakmarkanir í Brussel.
Á föstudaginn bárust fregnir af því að lögreglan í Brussel stöðvaði 25 manna kynlífsveislu í borginni og á meðal gesta hafi verið þingmaður Evrópuþingsins. Síðar hefur komið í ljós að umræddur þingmaður var Szajer sem viðurkenndi í dag að hann hafi verið í „einkasamkvæmi“ á föstudaginn.
„Mér þykir leitt að hafa brotið samkomubannið,“ sagði Szajer í yfirlysingu í dag. „Það var óábyrgt af minni hálfu og ég mun samþykkja viðeigandi refsiaðgerðir.“
Kynlífsveislan átti sér stað í íbúð í Rue des Pierres í hjarta Brussel. Samkvæmt heimildum the Brussel Times reyndi Szajer að flýja út úr íbúðinni með því að klifra niður frárennslisrör. Hann var síðar handsamaður og yfirheyrður af lögreglunni áður en hún keyrði hann heim.
Allir gestir veislunnar fengu 250 evra sekt fyrir að hafa brotið samkomubannið. Lögreglan fann einnig fíkniefni á staðnum.
„Lögreglan segir að e-tafla hafi fundist á staðnum. Hún er ekki mín og ég veit ekki hver setti hana þarna eða hvernig,“ segir í yfirlýsingu Szajer. „Lögreglan bað mig um að sýna persónuskilríki en ég var ekki með nein persónuskilríki á mér en ég tilkynnti þeim að ég væri þingmaður Evrópuþingsins,“ segir Szajer.
Szajer sem er háttsettur meðlimur í stjórnmálaflokki Orban Fidesz, forsætisráðherra Ungverjaland, sagði af sér um helgina. Í upphaflegri yfirlýsingu sinni sagði hann að það væri vegna þess álags sem fylgdi því að vera í pólitík.