Evrópuþingmaðurinn Peter Lundgren var í gær fundinn sekur um kynferðisbrot hjá Göta áfrýjunardómstólnum í borginni Jönköping, fyrir að þukla á samstarfskonu sinni. Lundgren hafði áður verið sýknaður hjá héraðsdómstól.

Lundgren situr á Evrópuþinginu fyrir Svíþjóðardemókratana, flokk yst á hægri vængnum sem hefur ítrekað komist í heimsfréttirnar fyrir harðlínustefnu sína gagnvart innflytjendum, múslimum og öðrum minnihlutahópum. Flokkurinn á rætur að rekja til sænskra nýnasistasamtaka.

Þessi 58 ára gamli fyrrverandi vörubílstjóri, var kjörinn á Evrópuþingið árið 2014 og endurkjörinn árið 2019. Hann sat áður í sveitarstjórn Gnosjö í Jönköping-sýslu í suðurhluta Svíþjóðar.Málið kom upp í nóvember árið 2019 þegar Lundgren var kærður fyrir að hafa þuklað á brjósti samflokkskonu sinnar innanklæða á hóteli í Stokkhólmi í marsmánuði árið 2018. Samkvæmt sjónvarpsstöðinni SVT sagði konan að Lundgren hefði hætt að þukla þegar hún bað hann um það.

Lundgren viðurkenndi að hafa snert brjóst hennar en sagðist hafa beðið konuna afsökunar og taldi að þar með væri málinu lokið. Fjölmiðlafulltrúi flokksins, Henrik Gustafsson, lýsti því yfir við fjölmiðla að allir aðilar hefðu rætt málið og komist að samkomulagi og væri málið því leyst. Hins vegar viðurkenndi Gustafsson að ganga þyrfti frá lagalegum endum.

Þrátt fyrir að forystan hafi reynt að halda lokinu á málinu, olli það nokkru fjaðrafoki innan flokksins. Ein af þeim sem lét í sér heyra var annar Evrópuþingmaður flokksins, Kristina Winberg, sem lét vita af framferði Lundgrens. Árið 2019 tók flokkurinn nafn hennar af lista frambjóðenda til Evrópuþingsins og var hún í kjölfarið flæmd úr flokknum.

Í yfirlýsingu var sagt að Winberg væri ekki trú flokknum og hefði saurgað orðspor hans.Áfrýjunardómstóllinn í Göta dæmdi Lundberg til að greiða ígildi 60 dagsekta til sænska ríkisins, 1.000 sænskar krónur hver. Er heildarsektin því í kringum 900 þúsund íslenskar krónur. Brotið hefði getað leitt af sér allt að tveggja ára fangelsisdóm en Lundgren slapp við það.

„Jafnvel þó að að þolandinn hafi ekki tilkynnt brotið til lögreglunnar sjálf, er augljóst að hún samþykkti ekki gjörðir mannsins,“ segir í dómnum.