Mjög hafði þokast í samningaviðræðum þingflokka um þinglok síðdegis í gær en þegar Fréttablaðið fór í prentun stóð afstaða til frumvarps Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna enn í veginum.

Þingmenn Miðflokksins höfðu ekki fyrr lokið málþófi sínu en Píratar röðuðu sér á mælendaskrá á þingfundi síðdegis í gær og voru enn að ræða orkumál þegar Fréttablaðið fór í prentun. Píratar vilja fá mál sitt um afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu til atkvæðagreiðslu á Alþingi en stjórnarmeirihlutinn hyggst leggja fram tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar.

Frekara málþófi Miðflokksins var afstýrt með samkomulagi um að fjárlaganefnd afgreiði sérstakt framhaldsnefndarálit um frumvarp tengt Borgarlínu þar sem komið er til móts við sjónarmið Miðflokksins. Afgreiðslu frumvarps um skipun sendiherra, sem mætt hefur mikilli andstöðu bæði stjórnarandstöðu og umsagnaraðila, verður frestað fram á haust. Þá er unnið að nokkrum breytingum á umdeildu samkeppnislagafrumvarpi til að liðka fyrir samningum um þinglok.

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir þó enga samninga í höfn fyrr en allir eru um borð. „Fyrirstaðan núna er hjá Pírötum,“ segir Birgir. Pírötum standi til boða að fá mál sitt á dagskrá en þeir vilji líka ráða afgreiðslu þess og þar strandi á samningum sem annars hafi náðst að mestu leyti milli þingflokka.

Venju samkvæmt er stefnt að lokaafgreiðslu nokkurra þingmannamála við þinglok. Þar á meðal eru mál Viðreisnar um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu, mál Miðflokksins um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir, tillaga um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sem Samfylkingin lagði fram og frumvarp Flokks fólksins um vísitölutengingu bóta almannatrygginga. Sem fyrr segir leggja Píratar áherslu á fyrrnefnt frumvarp um fíkniefni. Píratar sætta sig þó ekki við að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. „Við viljum bara að annaðhvort verði frumvarpið samþykkt og gert að lögum eða þingmenn hafni því í atkvæðagreiðslu,“ segir Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata.