Líklegt er að stillt verði upp á lista Viðreisnar í öllum kjördæmum, fyrir alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september næstkomandi. Í Suðvesturkjördæmi verður formaðurinn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, án efa áfram í forystu. Fyrsti formaður flokksins, Benedikt Jóhannesson, hefur sagst vilja vera í forystu á suðvesturhorninu.

Viðreisn hefur bætt töluvert við sig fylgi í könnunum og gæti því fjölgað þingmönnum. Allir fjórir þingmennirnir eru af höfuðborgarsvæðinu; tveir í Kraganum og einn í hvoru Reykjavíkurkjördæminu, þær Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Daði Már fer líklega fram í Reykjavík

Varaformaðurinn Daði Már Kristófersson sækist eflaust eftir forystusæti í Reykjavík og því gæti uppstillinganefnd látið aðra hvora þingkonuna víkja fyrir honum. Regla um fléttulista er við uppstillingu hjá Viðreisn. Einnig er litið til þess að hafa jafnvægi milli kynja meðal oddvita í kjördæmunum sex. Þess má geta að Þorbjörg var í öðru sæti á eftir Þorsteini Víglundssyni fyrir síðustu kosningar og tók við sæti hans þegar hann lét af þingmennsku í byrjun apríl á síðasta ári.

Í Reykjavík eru María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarkona formannsins, Dóra Sif Tynes og Diljá Ámundadóttir einnig orðaðar við framboð. Nokkrir bæjarfulltrúar eru líklegir til að vera á listum á höfuðborgarsvæðinu, þeirra á meðal Karl Pétur Jónsson, Sara Dögg Svanhildardóttir, Theódóra Þorsteinsdóttir og Einar Þorvarðarson.

Flokkurinn þarf að styrkja sig á landsbyggðinni

Viðreisn náði aðeins tveggja til þriggja prósenta fylgi á landsbyggðinni í síðustu kosningum. Fáir hafa verið nefndir til framboðs þar en Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, hefur lýst áhuga í Norðvesturkjördæmi.

Talið er að Viðreisn leiti á Suðurnesin eftir forystu í Suðurkjördæmi. Þar eru nefndir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, og Arnar Páll Guðmundsson formaður kjördæmisfélags flokksins.