Umdeilt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum er ekki lengur til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. En tillaga þessa efnis frá framsögumanni málsins, Kolbeins Óttarssonar Proppé, hefur verið samþykkt í nefndinni. Bókun hans um málið er svohljóðandi:

„Ýmsar spurningar hafa komið upp við vinnslu 644. máls, frumvarps til laga um breytingu á upplýsingalögum, sem kallar á umfangsmeiri skoðun en færi er á að fara í nú. Sem framsögumaður málsins legg ég því til að höfðu samráði við forsætisráðherra, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hætti umfjöllun sinni um málið.“

Frumvarpið unnið eftir óskum SA

Frumvarpið var lagt fram í kjölfar ábendingar Samtaka atvinnulífsins um mikilvægi þess að hagsmuna þriðja aðila sé gætt við veitingu upplýsinga frá hinu opinbera.

Verði frumvarpið að lögum verður opinberum aðilum skylt að leita eftir afstöðu þess sem upplýsingarnar geta varðað, til birtingar eða veitingar upplýsinga, nema það sé bersýnilega óþarft. Þá yrði úrskurðarnefnd um upplýsingamál gert að senda þriðja aðila afrit af úrskurði um afhendingu upplýsinga, auk þess sem þriðja aðila er veittur réttur til að krefjast frestunar réttaráhrifa úrskurðar.

Varað er mjög við breytingunni í fjölda umsagna, meðal annars frá Blaðamannafélaginu, Borgarskjalasafni og Siðfræðistofnun einkum vegna verulegra tafa sem yrðu á afgreiðslu beiðna um upplýsingar.

Skref aftur á bak

„Að þessu leyti vinnur frumvarpið gegn markmiði nýsamþykktra laga um útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga, sem miða meðal annars að því að styrkja upplýsingarétt almennings og stytta málsmeðferðartíma,“ segir í umsögn Siðfræðistofnunar sem telur að með samþykkt frumvarpsins verði stigið skref aftur á bak.

„Siðfræðistofnun telur mikilvægt að löggjafinn tryggi með afgerandi hætti að bætt og skýrari réttarstaða þriðja aðila, verði ekki til þess að málsmeðferðartími úrskurðarnefndar um upplýsingamál lengist og að afgreiðsla beiðna um upplýsingar á grundvelli upplýsingaréttar almennings tefjist ekki á ómálefnalegum forsendum. Eins og frumvarpið er úr garði gert er það ekki tryggt.“

Kolbeinn Óttarsson Proppe, þingmaður VG, og framsögumaður málsins, lagði til við nefndina í dag að málið verði tekið af dagskrá að höfðu samráði við forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Segja má að steininn hafi tekið úr þegar minnisblað barst nefndinni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem telur ljóst að verði frumvarpið samþykkt verði framkvæmd upplýsingalaga bæði flóknari og óskilvirkari og afgreiðsla erinda tefjast mun oftar og lengur.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku, lögðu Samtök atvinnulífsins til enn frekari breytingar á upplýsingalögum í umsögn sinni um málið, meðal annars þá að ríkið tæki upp gjaldtöku fyrir upplýsingagjöf.

„Með því er bæði staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af öflun gagna og jafnframt hvatt til þess að ekki sé óskað eftir gögnum og upplýsingum að óþörfu,“ segir í umsögninni sem hefur vakið hörð viðbrögð víða, einkum meðal fjölmiðlafólks.

Yrði fallist á þessa ósk SA myndi slíkur kostnaður væntanlega falla á fjölmiðla enda langflestar beiðnir um upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga frá blaða- og fréttamönnum.

Samtökin viðra fleiri hugmyndir í umsögn sinni. Meðal annars að fyrirspyrjandi þurfi að greina frá tilgangi upplýsingabeiðna og að frestur til að afhenda gögn verði lengdur úr einni viku í tvær. Þá leggja SA einnig til að heimild til að bera mál undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál verði útvíkkuð, þannig að einkaaðilar geti kært til hennar ákvörðun stjórnvalds um að veita upplýsingar sem þá varðar, enda ljóst að einkaaðilar geti haft hagsmuni af niðurstöðu stjórnvalda um afhendingu gagna. Síðastnefnda breytingin myndi þýða að í hvert skipti sem stjórnvald hyggst afhenda gögn samkvæmt upplýsingalögum, sem getur verið í hundruðum eða þúsundum tilvika í hverri viku, þurfi fyrst að leita afstöðu þriðja aðila sem kunni að koma fyrir í upplýsingunum.

Katrín Jakobsdóttir var innt eftir viðhorfum til hugmynda SA um gjaldtöku í hádegisfréttum á Rúv í dag. Sagði forsætisráðherra að sér hugnðust þær ekki. „Eftir því sem ég sé þá kalla allar þessar umsagnir á miklu meiri vinnu í þetta mál þannig að ég hef það ekki í for­gangi að þessu máli verði lokið núna. Ég tel að það sýni að við verðum að skoða þetta miklu bet­ur.“