Krafa Trumps til forseta Úkraínu um rannsókn á viðskiptum Hunters Biden þar í landi á meðan beðið var með hernaðarstuðning frá Bandaríkjunum fullnægir skilyrðum til þess að teljast bæði stjórnskipuleg og refsiverð mútubrot. Þetta er mat meirihluta réttarfarsnefndar fulltrúaþings Bandaríkjanna, sem birti í gær skýrslu til stuðnings ákæru á hendur forsetanum sem afgreidd var út úr nefndinni fyrir helgi.

Skýrslan er rúmlega 650 síður og undir hana ritar formaður nefndarinnar, Jerrold Nadler, og aðrir þingmenn Demókrata í nefndinni. Álit Rebúblikana sem eru í minnihluta í nefndinni fylgir skýrslunni.

Nefndin leggur til að forsetinn verði ákærður í tveimur liðum. Annars vegar leggur meirihluti nefndarinnar til að forsetinn verði ákærður fyrir misnotkun valds. (e. abuse of power). Um þann lið segir meðal annars í skýrslunni að ekki leiki vafi á glæpsamlegu eðli þess greiða sem forsetinn bað forseta annars ríkis um, enda hafi sá greiði haft gríðarlegt vægi fyrir hann persónulega. Hann hafi látið sína persónulegu hagsmuni ráða stjórnvaldsákvörðunum sínum um hernaðaraðstoð til annars ríkis. Jafnvel þótt refsivert athæfi sé ekki nauðsynlegt til dóms um embættismissi leiki ekki vafi á að umrætt athæfi forsetans sé refsivert.

Hins vegar leggur nefndin til að forsetinn verði ákærður fyrir að hindra starfsemi fulltrúaþingsins (e. obstruction of congress) með fyrirskipunum um að opinberir starfsmenn og embættismenn sinntu í engu formlegum stefnum til að bera vitni fyrir þingnefndum meðan rannsókn á embættisbrotum forsetans stóð yfir á vettvangi fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Forsetinn hafi gefið umræddar fyrirskipanir þvert á lög og án réttlætingar.

Í skýrslunni segir að sameiginlega lýsi ákæruliðirnir tveir því hvernig Donald Trump hafi sett sína persónulegu og pólitísku hagsmuni ofar öryggi þjóðarinnar, frjálsum kosningum og réttarríkinu. Forsetinn stundi kerfisbundin embættisbrot og muni ekki láta af þeim sjálfviljugur. Þar af leiðandi þurfi að fjarlægja hann úr embætti.

Forsetinn verður á baráttufundi

Samkvæmt bandarískum miðlum er stefnt að atkvæðagreiðslu í fulltrúadeild þingsins á morgun. Aðeins einfaldan meirihluta þarf til og þar sem Demókratar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni er gert ráð fyrir að samþykkt verði að stefna forsetanum til embættismissis. Þá fer málið til öldungadeildarinnar sem réttar yfir forsetanum og þar eru Rebúblikanar í meirihluta.

Sjálfur hyggst forsetinn verja deginum sem atkvæðagreiðslan í þinginu fer fram til kosningabaráttu en hann undirbýr nú baráttufund í Michigan á morgun. Hann sigraði Hillary Clinton naumlega í fylkinu í síðustu kosningum og er fylkið talið mjög mikilvægt fyrir gengi Repúblikana í kosningunum á næsta ári.

Þjóðin skiptist í hnífjafnar fylkingar

Samkvæmt nýrri könnun opinberu útvarpsstöðvarinnar NPR (e. National Public Radio) skiptist bandaríska þjóðin í hnífjöfn lið, með og á móti því að forsetinn verði ákærður. Aðeins eitt prósent skilur liðin að en 47 prósent styðja ákærur á hendur forsetanum á meðan 48 prósent eru andsnúin því. Viðhorf almennings hafa ekkert breyst frá síðustu könnun þrátt fyrir að hvert vitnið á fætur öðru hafi borið vitni hjá þingnefndum fulltrúadeildarinnar sem hafa haft mál forsetans til rannsóknar þær vikur sem liðið hafa milli kannana og mikið af nýjum upplýsingum komið fram skaðlegar forsetanum. Lee Miringoff, sem stýrir framkvæmd kannana fyrir NPR, sagði hinar nýju upplýsingar ekki hafa gert annað en að auka staðfestu fólks í skoðunum sínum. „Það er alveg eins og yfirheyrslurnar hafi aldrei farið fram.“