Frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslur neytsluskammta fíkniefna var fellt á Alþingi í gær. Atkvæði féllu eftir flokkslínum.

Þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins studdu málið og greiddu átján þingmenn málinu atkvæði. Tuttugu og átta þingmenn annarra flokka greiddu atkvæði gegn því. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði en átta þingmenn voru fjarstaddir.

Flestir sem tóku til máls um atkvæðagreiðsluna kváðust fylgjandi markmiði frumvarpsins en þingmenn meirihlutans greiddu ýmist atkvæði gegn því, sátu hjá eða greiddu ekki atkvæði.

„Mér finnst málflutningur stjórnarmeirihlutans sem hér hefur talað einkennast af fyrirslætti á fyrirslátt ofan," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um atkvæðagreiðsluna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagðist styðja markmið frumvarpsins en það væri ekki fullþroskað. Hún sagðist myndu halda áfram að vinna að markmiðum frumvarpsins í sínu ráðuneyti.

Hér er hægt að sjá hvernig atkvæði þingmanna féllu.

Frumvarp Flokks fólksins um vísitölutengingu bóta almannatrygginga, var einnig fellt en nokkur þingmannamál voru samþykkt, þar á meðal mál Viðreisnar um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu, mál Miðflokksins um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir og tillaga um aðlögun fólks af erlendum uppruna að íslensku samfélagi sem Samfylkingin lagði fram.

Borgarlínumál samþykkt

Meðal stjórnarfrumvarpa sem samþykkt voru á þessum síðasta þingdegi 150. löggjafarþings var frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um mikilvæga samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu og þá voru samgönguáætlanir næstu ára einnig samþykktar. Ný lyfjalög voru einnig samþykkt og nokkuð umdeildar breytingar á samkeppnislögum.

Þing kemur aftur saman í lok ágúst til að ræða fjármálastefnu.