Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og félagsmálaráðherra, lést í gærmorgun á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 83 ára að aldri, en hann hafði verið að glíma við langvinn veikindi. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, flutti ávarp á Alþingi í dag þar sem Páls var minnst.
Páll var fyrst kjörinn á Alþingi sumarið 1974 fyrir Framsóknarflokkinn og sat hann samfellt á þingi í 29 ár en hann var aldursforseti þingsins á síðustu árunum. Hann varð formaður Framsóknarflokksins árið 1980 og starfaði sem slíkur í fjórtán ár en árið 1995 var hann skipaður félagsmálaráðherra.
Glaðlyndur að eðlisfari
Hann gegndi embætti félagsmálaráðherra í tvö kjörtímabil og lauk þingmennsku hans árið 2003. Á ráðherraárum hans lét hann sig mörg mál varða en meðal þeirra stóru mála sem komust í höfn voru húsnæðis- og vinnumarkaðsmál, sem og löggjöd um fæðingar- og foreldraorlof.
Steingrímur lýsti Páli sem glaðlyndum manni að eðlisfari sem hafði aflað sér vina þvert á pólitískar línur og hafi notið mikils trausts þegar deilumál komu upp á milli manna og flokka.

Ávarp Steingríms í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:
Í gærmorgun lést Páll Pétursson, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, á líknardeild Landspítalans í Kópavogi eftir langvinn veikindi, 83 ára gamall. Páll Pétursson var fæddur á Höllustöðum í Blöndudal 17. mars 1937. Foreldrar hans voru bændahjónin þar, Hulda Pálsdóttir og Pétur Pétursson. Páll ólst þar upp við almenn sveitastörf.
Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1957 og hóf þá þegar búskap á Höllustöðum, svo sem hugur hans stóð til, og bjó þar lengst um meðan sætt var og jafnan kenndur við þann stað. Hann naut bústarfanna, unni landinu og náttúru þess, hafði yndi af dýrum, einkum sauðfé og hrossum, og kunni glögg skil á háttum þeirra.
Á æskuslóðum hans var rík félagsmenning og stjórnmálaáhugi mikill. Voru frændur hans margir alþingismenn og forystumenn í héraði. Þann áhuga erfði hann, varð forystumaður ungra Framsóknarmanna í sveitinni, kosinn í hreppsnefnd, og var valinn til framboðs fyrir Framsóknarflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra sumarið 1974, og kjörinn alþingismaður þá.
Sat hann samfellt á Alþingi í 29 ár, á 34 löggjafarþingum og var aldursforseti þingsins síðustu árin. Páll Pétursson lét frá upphafi að sér kveða á Alþingi, var snjall ræðumaður, og naut vaxandi álits og trúnaðar samflokksmanna sinna. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1980 og hafði það starf á hendi í fjórtán ár.
Vorið 1995 var Páll skipaður félagsmálaráðherra og gegndi því embætti í full tvö kjörtímabil eða þar til þingmennsku hans lauk 2003. Páll lét sér löngum landbúnaðarmál og hag bænda miklu skipta en sinnti jafnframt vel nefndastörfum á Alþingi á mörgum málefnasviðum, vaskur til verka og fylginn sér. Hann var glöggskyggn, fljótur að setja sig inn í mál og skilaði vel því sem honum var trúað fyrir. Hann hélt góðu sambandi við kjósendur í kjördæmi sínu gjörþekkti þar staðhætti alla, sögu héraðanna og íbúa þeirra.
Á ráðherraárum hans komust mörg stór mál í höfn, m.a. í húsnæðis og vinnumarkaðsmálum, og ekki hvað síst ný merk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof. Sem formaður þingflokks um óvenju langan tíma setti Páll mark sitt á þingstarfið og skipulag þess. Átti hann ríkan hlut að stjórnarskrárbreytingunni 1991 þegar deildir þingsins voru afnumdar og Alþingi voru sett ný þingsköp með mörgum nýjungum.
Páll var áhugasamur um norrænt og vestnorrænt samstarf og var fyrst kosinn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1980. Tvívegis varð hann forseti ráðsins, í fyrra sinn 1985 og svo síðar 1990, einmitt þegar víðsjár voru í alþjóðamálum og samvinna Norðurlandaráðs við Eystrasaltsríkin var að hefjast og byggjast upp.
Páll Pétursson var glaðlyndur að eðlisfari, hnyttinn í orðum og spaugsamur, en skapmikill þegar sló í brýnu. Hann var mikill sögumaður og með bestu hagyrðingum á þingi og urðu margir kviðlingar hans fleygir. Páll var litríkur persónuleiki og orðaði oft hlutina umbúðalaust. Í stjórnmála snerrum gaf hann hvergi hlut sinn, frekar en hann átti kyn til, en það segir nokkuð um mannkosti hans og heilindi að hann aflaði sér vina þvert á hinar pólitísku línur og naut mikils trausts þegar lenda þurfti erfiðum deilumálum milli manna og flokka.
Ég bið þingheim að minnast Páls Péturssonar fyrrverandi alþingismanns með því að rísa úr sætum.