Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, lauk rétt í þessu við ávarp sitt á Alþingi og risu allir þingmenn úr sætum og klöppuðu fyrir Selenskíj.

Í lok ávarps síns sagði Selenskíj meðal annars að reynsla Íslendinga í orkuframleiðslu gæti komið að gangi við enduruppbygginu í Úkraínu að stríði loknu.

Selenskí sagðist vonast til að enduruppbygging gæti hafist fljótt en fyrst yrði að vinna stríðið við Rússa.

Að sögn Selenskíj er ætlun Rússa ekki eingöngu að taka landið í stríðinu heldur öllu sem því fylgir. Ætlun Rússa væri að leggja undir sig allt sem tilheyrir úkraínsku þjóðinni og sagði Selenskí að allar aðgerðir sem Ísland og aðrar þjóðir hafa tekið til að veita Úkraínu stuðning hjálpi.

Selenskíj ítrekaði að öll aðstoð væri vel þegin í stríðinu og hvatti hann Íslendinga til að halda áfram aðstoðinni og auka þrýsting á Rússland.

Árás á almenna borgara

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði Selenskíj að lokum en hún þakkaði honum fyrir þróttinn sem hann og úkraínska þjóðin hefði sýnt.

Katrín sagði Alþingi og íslensku þjóðina fordæma árásina og sagði hana vera fyrst og fremst árás á almenna borgara í Úkraínu, daglegt líf þeirra, öryggi og framtíðarvonir.

Katrín fullvissaði Selenskíj um að Ísland myndi halda áfram að styðja við úkraínsku þjóðina og sagði tengsl Íslands og Úkraínu ná langt aftur.

Sjá mátti að ávarp Selenskíj snerti við þingmönnum en í útsendingunni sáust tár á hvarmi sumra viðstraddra.

Í lok ávarps Katrínar bað Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, alla viðstadda um að rísa úr sætum í virðingarskyni við forseta Úkraínu og úkraínsku þjóðina.

Selenskíj hélt tilfinningaþrungið ávarp fyrir íslensku þjóðina á Alþingi í dag.
Fréttablaðið/Skjáskot af vef Alþingis