Í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins verður haldinn þingfundur þann 17. júní næstkomandi. Það væri e.t.v. ekki frásögu færandi nema sökum þessa að 70 ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára munu sitja fundinn.

Markmið fundarins er að gefa ungu fólki kost á því að kynna sér störf Alþingis og koma málefnum sínum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar. Verður þingfundurinn sýndur í beinni útsendingu á RÚV og vef Alþingis. UngRÚV verður jafnframt hluti af verkefninu og mun að hlut sjá um upptökur og frekari kynningu á verkefninu.

Eins og áður segir er gert ráð fyrir því að um 70 ungmenni af landinu öllu taki þátt í fundinum. Hluti þeirra verður tilnefndur af ungmennaráðum og um helmingur verður valinn úr hópi umsækjanda. Umsóknarfrestur er til 20. maí næstkomandi og hægt er að sækja um þátttöku hér.

Boðið verður upp á styrk vegna ferða- og gistikostnaðar fyrir þá sem koma langt að, en þó er gert ráð fyrir að foreldri eða forsjáraðili ferðist með hverjum þátttakanda og er ferðakostnaður hans einnig styrktur.