Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frestaði fundum Alþingis fram í september klukkan hálf tvö í nótt. Þá höfðu ýmis mál verið tekin fyrir á síðasta þingfundinum fyrir sumarfrí. Katrín áskilur sér þó enn rétt til að kalla þingið saman í sumar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka kemur út, líklega í júlí.
Meðal þess sem var afgreitt á þessum síðasta þingfundi voru rammaáætlun, auknar endurgreiðslur til stærri kvikmyndaverkefna og leyfi fyrir áfengisframleiðendur til að selja afurðir á framleiðslustað, en það felur í sér að brugghús geti sjálf selt bjórinn sinn. Lögin eiga að taka gildi um næstu mánaðamót.
Ríkisstjórninni var falið að leggja tillögu fyrir þing aðildarríkja Alþjóðlega sakamáladómstólsins um að vistmorð verði viðurkennt í Rómarsamþykktinni sem brot á alþjóðalögum og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um að það verði bannað að landslögum. Píratar lögðu fram þingsályktunartillögu um vistmorð til Alþingis í nótt og flutti Andrés Ingi Jónsson tillöguna.
Viðreisn fékk frumvarp í gegn sem mun auðvelda þolendum heimilisofbeldis að fá skilnað. Fram til þessa þurfti maki að gangast við broti sínu til að þolendur gætu krafist lögskilnaðar. Með nýja frumvarpinu opnast fleiri leiðir til að fá slíkt í gegn og önnur gögn á borð við upplýsingar frá lögreglu, áverkavottorð og mat frá sálfræðingi duga til að þolandi geti krafist lögskilnaðar.