Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra frestaði fundum Al­þingis fram í septem­ber klukkan hálf tvö í nótt. Þá höfðu ýmis mál verið tekin fyrir á síðasta þing­fundinum fyrir sumar­frí. Katrín á­skilur sér þó enn rétt til að kalla þingið saman í sumar þegar skýrsla Ríkis­endur­skoðunar um sölu á hlutum ríkisins í Ís­lands­banka kemur út, lík­lega í júlí.

Meðal þess sem var af­greitt á þessum síðasta þing­fundi voru rammaáætlun, auknar endur­greiðslur til stærri kvik­mynda­verk­efna og leyfi fyrir á­fengis­fram­leið­endur til að selja af­urðir á fram­leiðslu­stað, en það felur í sér að brugg­hús geti sjálf selt bjórinn sinn. Lögin eiga að taka gildi um næstu mánaða­mót.

Ríkis­stjórninni var falið að leggja til­lögu fyrir þing aðildar­ríkja Al­þjóð­lega saka­mála­dóm­stólsins um að vist­morð verði viður­kennt í Rómar­sam­þykktinni sem brot á al­þjóða­lögum og leggja fram á Al­þingi frum­varp til laga um að það verði bannað að lands­lögum. Píratar lögðu fram þings­á­lyktunar­til­lögu um vist­morð til Al­þingis í nótt og flutti Andrés Ingi Jóns­son til­löguna.

Við­reisn fékk frum­varp í gegn sem mun auð­velda þol­endum heimilis­of­beldis að fá skilnað. Fram til þessa þurfti maki að gangast við broti sínu til að þol­endur gætu krafist lög­skilnaðar. Með nýja frum­varpinu opnast fleiri leiðir til að fá slíkt í gegn og önnur gögn á borð við upp­lýsingar frá lög­reglu, á­verka­vott­orð og mat frá sál­fræðingi duga til að þolandi geti krafist lög­skilnaðar.