„Við erum að fara í gegnum þetta leiðinda­mál,“ segir Guð­mundur Ingi Kristins­son þing­flokks­for­maður Flokks fólksins um Twitter­færslu Tómasar Tómas­sonar sem farið hefur eins og eldur um sinu um sam­fé­lags­miðla í dag.

Í færslunni birtir Tómas skjá­skot af einka­sam­tali við fé­laga sinn þar sem um­ræðu­efnið virðist vera vændis­kaup hans í Bang­kok í Tæ­landi. Færslan er að margra mati afar ó­geð­felld.

Að sögn Guð­mundar Inga eru á­kveðin leiðindi á bak við málið.

„Þetta er full­orðinn ein­stak­lingur sem var ekki á þingi þegar þetta fór fram. Það eru á­kveðin leiðindi á bak við þetta.“

Að­spurður segir Guð­mundur Ingi mögu­lega af­sögn Tómasar meðal þess sem þing­flokkurinn muni ræða í dag.

„Þetta er það sem þing­flokkurinn verður að skoða og taka á­kvörðun um. Við munum ræða þetta mál fram og til baka og finna niður­stöðu.Vonandi náum við því í dag, en eins og ég segi þá eru sumir í veikinda­leyfi þannig þetta get­ur tekið tíma,“ segir Guð­mundur og vísar þar til formanns flokksins, Ingu Sæ­land. Sjálfur er Guð­mundur stað­gengill formanns meðan Inga er í veikinda­leyfi.

Var Tómas búinn að ræða þetta við þing­flokkinn áður en hann birti færsluna?

„Nei ekki mig,“ segir Guð­mundur. „Þetta kom mér al­gjör­lega á ó­vart.“