Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fordæmir harðlega innrás tyrkneska hersins inn í Norður-Sýrland. Þetta kemur fram í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í dag.

„Það er ljóst að innrás tyrkneska hersins inn í annað ríki, stangast á við alþjóðalög, ógnar viðkvæmu ástandi á stríðshrjáðu svæði, ýtir undir mannskæðar ofsóknir í garð Kúrda og er mjög líklegt til að styrkja ISIS hryðjuverkasamtökin á svæðinu við botni Miðjarðarhafs og stuðla að pólitískum óstöðugleika á svæðinu sem bitna muni hvað verst á saklausum borgurum,“ segir í tilkynningunni.

Fregnir bárust í dag um að tyrkneski herinn hafi ráðist inn í norðurhluta Sýrlands.

Þingflokkur Vinstri grænna ítrekar mikilvægi friðsamlegrar uppbyggingar í Sýrlandi. Borgarastyrjöld sem hefur átt sér stað í átta ár hefur kostað mörg hundruð þúsund mannslíf og hrakið milljónir á flótta, bæði innan og utan Sýrlands.

„Þingflokkurinn hvetur ríkisstjórn Íslands til að beita sér í hvívetna gegn áframhaldandi stríðsátökum í Sýrlandi sem mun ávallt bitna mest á börnum og konum og tala ávallt fyrir friðsamlegri uppbyggingu Sýrlands með aðkomu fjölþjóðlegra stofnanna.“

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­kona Pírata, kallaði eftir því í um­ræðu um störf þingsins fyrr í dag að ríkis­stjórnin for­dæmi inn­rás Tyrkja í Sýr­land. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segist hafa miklar áhyggjur af innrás Tyrkja og kallar eftir vopnahléi.