Þingflokkur Vinstri grænna fordæmir Ísraelsstjórn og segir aðgerðir ísraelska landtökumann vera gróft brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum.

Mikil ólga hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur í kjölfar máls í hæstarétti Ísraels um hvort vísa skyldi palestínskum fjölskyldum á brott til að koma Ísraelum að. Upp úr sauð í aðdraganda Jerúsalem-dagsins þar sem mikil átök brutust út á milli Palestínumanna og ísraelskra lögreglusveita. Ísraelsher hefur staðið fyrir linnulitum loftárásum á Gaza og hefur landherinn mætt óbreyttum borgurum á Vesturbakkanum. Víða um allt Ísrael hefur múgæsingur myndast þar sem öfga-hægri hópar hafa leitað uppi Araba og ráðist á þá.

Hamas-samtökin á Gaza hafa skotið eldflaugum sínum í átt að ísraelskum borgum en fæstar hafa náð marki sínu þökk sé flugskeytavörnum Ísraels.

Þingflokkur VG segir viðbrögð Ísraelsstjórnar við þessum eldflaugaskotum Hamas-samtakanna, „loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofur þéttbýl svæði Palestínumanna,“ vera algjörlega óverjandi. Sömuleiðis séu lögregluaðgerðir ísraelskra yfirvalda gegn mótmælendum í Jerúsalem óverjandi.

Félag Ísland-Palestína hefur kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda við blóðbaðinu og boða til mótmælafundar á Austurvelli á morgun, laugardaginn 15. maí klukkan 13:00.Krafist er þess að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni sem fékk blendin viðbrögð en þar lýsti hann því yfir að „allar hliðar“ ættu að linna árásum.

Þingflokkur Vinstri-græna taka skýrari afstöðu gegn stjórnvöldum Ísrael og minnir jafnframt á samþykkt Alþingis frá 2011 um viðurkenningu á sjálf­stæði og full­veldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis.

„Vinstri græn hafi ávallt lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað sé friðsam­legra lausna í deil­um fyr­ir botni Miðjarðar­hafs. Raun­veru­leg­ur friður kom­ist aldrei á með vopna­valdi og kúg­un og mik­il­vægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mann­rétt­ind­um íbúa svæðis­ins.“

Yfirlýsing þingflokks VG í heild sinni:

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Þær eru gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum.

Þá eru harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza strönd til Ísraels, loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofur þéttbýl svæði Palestínumanna, óverjandi. Lögregluaðgerðir ísraelskra yfirvalda gegn mótmælendum í Jerúsalem eru einnig óverjandi.

Vinstri græn hafi ávallt lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað sé friðsam­legra lausna í deil­um fyr­ir botni Miðjarðar­hafs. Raun­veru­leg­ur friður kom­ist aldrei á með vopna­valdi og kúg­un og mik­il­vægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mann­rétt­ind­um íbúa svæðis­ins.

Þingflokkur Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs minn­ir jafn­framt á samþykkt Alþing­is Íslend­inga frá 2011 um viður­kenn­ingu á sjálf­stæði og full­veldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis