Þingflokkur Framsóknarflokks hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem árásir Ísraelshers á Palestínumenn á Gaza eru fordæmdar harðlega. „ Fórnarlömbin eru helst íbúar Palestínu, óbreyttir borgarar, konur og börn. Árásir ísraelska hersins eru gróft brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og glæpur gegn mannúð“, segir í yfirlýsingunni.

Minnt er á að fyrir tíu árum samþykkti Alþingi viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Mikilvægt sé að átökum verði hætt svo hægt sé að koma á tveggja ríkja lausn á svæðinu. „Ofbeldi gegn almennum borgurum eykur vonleysi, vonleysi leiðir til haturs og til verður vítahringur sem þarf að stöðva. Í friði finnst von“, segir að lokum.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd lögðu í morgun fram bókun þar sem árásir á óbreytta borgara voru fordæmdar. Áheyrnarfulltrúi Pírata í nefndinni studdi bókunina en þing­menn VG, Fram­sóknar, og Sjálf­stæðis­flokksins gerðu það ekki.

„Framsóknarflokkurinn mun alltaf styðja mannréttindi og við viljum að sjálfsögðu stuðla að friði í hvítvetna.“

Ómaklega vegið að ríkisstjórninni

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkinginnar, lýsti yfir vonbrigðum í umræðum um störf þingsins á þingfundi í dag, að þingmenn VG og Framsóknar hafi ekki stutt bókunina.

„Það er með ólíkindum að þingmenn þessa flokka hafi ekki treyst sér til þess að taka einarða afstöðu með mannréttindum en hafi lagst undir hæl Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að veigra sér undan því einfalda hlutverki að bóka á fundi utanríkismálanefndar,“ sagði Rósa Björk.

Í samtali við Fréttablaðið segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar, að þingflokkur hennar hefði ákveðið í gær að senda frá sér yfirlýsingu að fordæma árásina á Palestínu. Ástæðan fyrir því að flokkurinn samþykkti ekki bókunina hafi því verið af þingtæknilegum ástæðum.

„Samkvæmt hefðinni á Alþingi eru bókanir vanalega ekki nýttar til að lýsa yfir afstöðu í einstaka málum, heldur til afgreiðslu mála í nefndinni. Ég ákvað af þingtæknilegum ástæðum að vera ekki með í bókuninni til að skapa ekki fordæmi,“ segir Silja Dögg. Aðspurð um ræðu Rósu Bjarkar segir Silja Dögg að henni hafi þótt málflutningur hennar á þinginu ósanngjarn og rangur.

„Framsóknarflokkurinn mun alltaf styðja mannréttindi og við viljum að sjálfsögðu stuðla að friði í hvítvetna,“ segir Silja Dögg.

Sigríður Á Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fannst einnig ómaklega vegið að VG og Framsókn.

„Ég vil nefna það hér að tilgangur bókanna fastanefnda Alþingis eru til þess að bóka um afstöðu manna til afgreiðslu tiltekinna mála. Að öðru leyti taka þingmenn afstöðu til mála hvers lags eðli sem þeir eru með afstöðu til þingmála hér í þingsal en ekki með bókunum af þessu tagi. Það er ómaklega vegið að ríkisstjórninni þegar látið er að því liggja að þingmenn stjórnarflokkanna treysti sér ekki til að taka þátt í bókunum sem þessum.“

„Þetta eru vonbrigði,“ sagði Rósa Björk á þingfundi í dag um ákvörðun VG og Framsóknar að styðja ekki bókun í utanríkismálanefnd.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Frá því að átökin hófust fyrir rúmri viku hafa að minnsta kosti 219 Palestínumenn látist, þar af 63 börn, og 1.500 til viðbótar særst. Í árásum á Ísrael hafa tólf Ísraelar látist, þar af tvö börn, og hafa um 300 særst. Um er að ræða blóðugustu átök á milli Ísrael og Palestínu frá árinu 2014.