Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata hyggst ekki þiggja boð Önnu Val­dísar Jóns­dóttur vara­for­manns og verk­efna­stjóra Fjöl­skyldu­hjálpar Ís­lands á Reykja­nesi um að koma og að­stoða við út­hlutun.

Í gær birtist færsla á Face­book-síður Fjöl­skyldu­hjálpar þar sem kom fram að matar­út­hlutun færi fram daginn eftir og byrjað yrði á Ís­lendingum. Færslan hefur vakið mikla at­hygli og reiði og hafa sam­tökin verið sökuð um ras­isma.

Þing­­maður Pírata, Björn Leví Gunnars­­son, er einn þeirra sem vakti at­hygli á færslunni og sagði skiptinguna brjóta í bága við stjórnar­­skránna því um væri að ræða mis­munun.

Anna Val­dís sagði í gær að hún taki fulla á­byrgð á færslunni og viður­kennir að hún hafi verið barna­lega eða illa orðuð. Hún segist þó ekki vera ras­isti, heldur beri hún virðingu fyrir út­lendingum.

Út­hlutun fer fram í dag og hvatti Anna Pírata sér­stak­lega til þess að mæta og að­stoða við út­hlutunina. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Björn Leví að hann hyggist ekki taka boði Önnu um að koma að­stoða. Hann segir að fjöl­miðlar myndu gera sirkus úr því.

„Ef ég myndi fara og hjálpa svona þá myndi ég gera það án þess að það séu ein­hverjar mynda­vélar og svo­leiðis. Þannig að ég efast um að það sé hægt, af því að það yrði ó­hjá­kvæmi­lega ein­hver fjöl­miðlasirkus. Það er nóg sem þarf að gera þarna án þess að við séum að þvælast fyrir,“ segir Björn Leví.

Varðandi út­skýringar Önnu Val­dísar segir Björn að textinn hafi verið lé­legur en það séu ekki allir rit­höfundar sem geta skrifað full­kominn texta.

„Ég hef sjálfur glímt við það að koma ekki hlutunum frá mér á nægjan­lega skiljan­legan hátt. Þetta var virki­lega lé­legur texti ef hann átti að koma frá sér annari meiningu. En það eru ekki allir rit­höfundar og það geta ekki allir skrifað full­kominn texta,“ segir Björn.

„Það þarf að skoða að­eins söguna í þessu sam­hengi. Þegar maður reynir að komast að því hvort hér er um mis­skilning að ræða eða ekki, þá sér maður fullt af öðrum fréttum þar sem Ís­lendingum er hleypt fyrir og gefin for­gangur og ýmis­legt svo leiðis. En maður tekur það ekkert lengra ef þau segja annað og gera annað,“ segir Björn.