Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata hyggst ekki þiggja boð Önnu Valdísar Jónsdóttur varaformanns og verkefnastjóra Fjölskylduhjálpar Íslands á Reykjanesi um að koma og aðstoða við úthlutun.
Í gær birtist færsla á Facebook-síður Fjölskylduhjálpar þar sem kom fram að matarúthlutun færi fram daginn eftir og byrjað yrði á Íslendingum. Færslan hefur vakið mikla athygli og reiði og hafa samtökin verið sökuð um rasisma.
Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, er einn þeirra sem vakti athygli á færslunni og sagði skiptinguna brjóta í bága við stjórnarskránna því um væri að ræða mismunun.
Anna Valdís sagði í gær að hún taki fulla ábyrgð á færslunni og viðurkennir að hún hafi verið barnalega eða illa orðuð. Hún segist þó ekki vera rasisti, heldur beri hún virðingu fyrir útlendingum.
Úthlutun fer fram í dag og hvatti Anna Pírata sérstaklega til þess að mæta og aðstoða við úthlutunina. Í samtali við Fréttablaðið segir Björn Leví að hann hyggist ekki taka boði Önnu um að koma aðstoða. Hann segir að fjölmiðlar myndu gera sirkus úr því.
„Ef ég myndi fara og hjálpa svona þá myndi ég gera það án þess að það séu einhverjar myndavélar og svoleiðis. Þannig að ég efast um að það sé hægt, af því að það yrði óhjákvæmilega einhver fjölmiðlasirkus. Það er nóg sem þarf að gera þarna án þess að við séum að þvælast fyrir,“ segir Björn Leví.
Varðandi útskýringar Önnu Valdísar segir Björn að textinn hafi verið lélegur en það séu ekki allir rithöfundar sem geta skrifað fullkominn texta.
„Ég hef sjálfur glímt við það að koma ekki hlutunum frá mér á nægjanlega skiljanlegan hátt. Þetta var virkilega lélegur texti ef hann átti að koma frá sér annari meiningu. En það eru ekki allir rithöfundar og það geta ekki allir skrifað fullkominn texta,“ segir Björn.
„Það þarf að skoða aðeins söguna í þessu samhengi. Þegar maður reynir að komast að því hvort hér er um misskilning að ræða eða ekki, þá sér maður fullt af öðrum fréttum þar sem Íslendingum er hleypt fyrir og gefin forgangur og ýmislegt svo leiðis. En maður tekur það ekkert lengra ef þau segja annað og gera annað,“ segir Björn.