Þórbergur Þórðarson skrifaði í Ofvitanum: „Þið hlæið ekki, þegar ég er orðinn fullkominn maður. Lausnin er sú, að semja mér lífsreglur, sem ákveði allt það helsta, sem mér ber að gera og ógert að láta, bæði í daglegri breytni og andlega lífinu.“

Lífsreglur Þórbergs voru allt frá því að fara aldrei í kirkju eða á aðrar trúarsamkomur, þroska hugsunargáfurnar og tilfinningalífið yfir í að hugsa aldrei um kvenfólk nema á sunnudögum og sofa alltaf við opinn glugga.

Hver og einn getur sett sér lífsreglur en undanfarið hafa líka verið margs konar átök þar sem fólk tekur upp ákveðin gildi í einn mánuð. Dæmi um það eru plastlaus september eða áfengislaus janúar, sem miða að því að bæta vana og losna við ósiði, allt til að betra sjálfan sig eða heiminn.

Vinsælt áramótaheit

Fyrir utan að setja sér lífsreglur er fólk gjarnt á að strengja áramótaheit. Vinsæl heit eru að fara oftar í líkamsrækt eða missa nokkur kíló. Það þótti því til tíðinda þegar stór bandarísk könnun á vegum Marist Poll, sem gerð er árlega, leiddi í ljós að hvað vinsælasta áramótaheitið síðustu ár hefur verið að verða betri manneskja. Árið 2018 voru reyndar tvö heit jöfn, 12% vildu verða betri manneskja og sama hlutfall vildi grennast. Árið á undan vildu 16% verða betri manneskja en 10% grennast og 10% stunda meiri líkamsrækt.

Áhugavert er að það að verða betri manneskja er vinsælasta heitið hjá karlmönnum en 17% heita því á meðan 15% kvenna vilja grennast, sem er vinsælasta heitið hjá þeim. Tveir þriðju segjast svo almennt standa við áramótaheit sín.