„Nei ekkert fram komið annað en segir í tilkynningunni í morgun,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu um stunguárásina í miðbænum í nótt.
Tveir karlmenn voru í nótt handteknir á fimmta tímanum í nótt eftir að hafa stungið mann með eggvopni, að sögn lögreglu.
Árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Prikið og er talið að aðilar máls séu allir karlmenn á tvítugsaldri.
„Já þetta er bara í rannsókn, við sjáum bara til hvernig þetta þróast,“ segir Grímur um rannsókn málsins, en mennirnir verða yfirheyrðir seinna í dag.
„Maðurinn var fluttur á slysadeild og er enþá á spítalanum. Þetta voru alvarlegir áverkar,“ segir Grímur aðspurður um líðan mannsins
Þá segist Grímur ekki hafa neinar upplýsingar um hvort árásin tengist hnífaárásinni sem átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn 203 í síðasta mánuði.