Möguleikinn á annarri ferðagjöf til landsmanna verður sett í sérstaka skoðun en ríkisstjórnin ræddi málið á fundi sínum fyrr í dag. „Þetta virkaði og þess vegna erum við að hugsa um að gera þetta aftur,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, eftir fundinn í morgun.
Meðal þess sem er verið að skoða er hvort ný gjöf verði í nákvæmlega sömu mynd og sú síðasta, eða hvort það þurfi að breyta einhverju. „Útfærslan eins og hún var síðast var bara fín en það er sjálfsagt að líta til þess hvort það sé einhver þjónusta eða afþreying sem ætti mögulega heima þar inni líka,“ sagði Þórdís.
Kynna fyrri ferðagjöfina enn frekar
Þá greindi hún einnig frá því að gildistími ferðagjafarinnar í fyrra verði framlengdur. „Við ætlum að framlengja annars vegar gildistímann ferðagjafarinnar eins og hún er í dag og setja svolítið púður í að kynna það enn frekar,“ segir Þórdís í samtali við Fréttablaðið um málið en ferðagjöfin sem gefin var í fyrra mun gilda til lok sumars.
Aðspurð um hvort ferðagjöfin hafi skilað sér til ferðaþjónustunnar eins og ætlað var segist Þórdís telja svo vera og vísar til þess að fyrirtæki í ferðaþjónustunni hafi tekið aðgerðinni fagnandi. „Þetta var náttúrulega bæði táknræn og raunveruleg aðgerð sem skilaði sér í frekari umsvifum.“
Hún bætir þó við að enn eigi rúmlega helmingur landsmanna eftir að nýta sína gjöf. Hún minnir á að fólk geti enn notað gjöfina eða gefið hana áfram.