Guðlaugur Þór Þórðarson segir að hann muni ekki stilla því upp að hann hætti í stjórnmálum nái hann ekki kjöri sem formaður. Það segir hann í viðtali við Fréttablaðið eftir að hann tilkynnti framboð sitt á fjölmennum fundi í Valhöll í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki hans voru 500 staddir í húsinu þegar hann tilkynnti framboðið við mikinn fögnuð viðstaddra.

„Mér líður vel, það er ekki annað hægt,“ segir Guðlaugur og að hann muni ekki, á sínum ferli, eftir svona góðri mætingu á fund í Valhöll.

Hann hefur leigt rými á Suðurlandsbraut fyrir kosningaskrifstofu sína og mun dvelja þar í vikunni þegar hann sinnir ekki skyldum sínum sem ráðherra.

„Þetta verður stutt og skörp barátta,“ segir hann en baráttan snýst að hans mati um það að snúa aftur að gömlum gildum flokksins og að mannauði hans.

„Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn, hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn,“ sagði Guðlaugur í Valhöll í dag.

Hann talaði í ræðu sinni í Valhöll í dag og í viðtali fyrr í vikunni um að flokkurinn talaði ekki enn fyrir „Stétt með stétt“ eins og hann gerði og í ræðu sinni sagði hann að flokkurinn væri ekki „yfirstétt með yfirstétt“ eða „millistétt með millistétt“.

Mikill fjöldi var á fundinum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fólkið sammála

Hann segir að fólkið sem hafi komið á fundinn sé honum sammála að flokkurinn eigi að líta aftur til þessara gilda og að þetta sé það sem hann hafi heyrt í símtölum við fólk mánuðum saman.

En er þetta líka tilefni til samtals á landsfundinum, um það hvert flokkurinn stefnir, ekki bara í tengslum við það hver er formaður hans?

„Já, algerlega. Einn maður gerir ekki neitt. Formaður verðu að leiða en stjórnmálamaður gerir ekki neitt einn. Þú verður að vinna með öðrum og það er það sem ég legg áherslu á. Að fá fólk til starfa og nýta mannauðinn. Það þarf skipulagningu og hugsun í því til að það geri raungerst.“

Tekur niðurstöðunni

Guðlaugur átti samtal við Bjarna fyrr í dag, um framboðið. Hvað varðar yfirlýsingu Bjarna um að hætta tapi hann slagnum segir Guðlaugur að hann muni ekki koma með slíkar yfirlýsingar.

„Ég lít á það sem fullkominn forréttindi að vera kjörinn fulltrúi og ég verð alltaf þakklátur þessu fólki sem hefur stutt mig í það. Ég myndi aldrei stilla því upp við vegg. Ég mun taka niðurstöðunni en ég mun ekki stilla neinu upp við vegg,“ segir Guðlaugur og að hann geti ekki annað en fyllst bjartsýni þegar litið var yfir þann stóra hóp sem kom saman í Valhöll í dag.

„En það er auðvitað ekkert öruggt í þessu.“

Hér að neðan eru fleiri myndir af fundinum.

Fólk kepptist við að faðma Guðlaug að ræðunni lokinni.
Fréttablaðið/Anton Brink
Sumir vildu faðma og segja nokkur orð.
Fréttablaðið/Anton Brink
Mikil gleði á fundinum.
Fréttablaðið/Anton Brink