„Þetta verður mjög erfitt og flókið. Það er heljarinnar vinna sem þarf að fara í núna og það er eitt­hvað sem við munum hefjast handa við strax á morgun,“ segir Kjartan Hreinn Njáls­son, að­stoðar­maður land­læknis um hvernig tekið verður á landamæraskimun í næstu viku.

Kári Stefáns­son, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á­kvað í dag að ÍE myndi hætta að greina sýni úr skimun á Kefla­víkur­flug­velli frá og með mánu­deginum í næstu viku. Ljóst er að Sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans getur ekki fyllt í skarð ÍE en alls voru 1941 sýni tekin á flugvellinum í gær.

Kjartan gerir ráð fyrir því að næstu dagar verði „al­gjör­lega þétt­setnir af fundum“ til að skipu­leggja hvernig skimun verði háttað „svo hún haldi á­fram jafn vel og hún hefur gert hingað til.“

Hann segir að Alma D. Möller, land­læknir, og Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, munu setjast niður með þeim sem komu að því að skipu­leggja landa­mæra­skimunina strax á morgun.

Vonast til að eiga mikið af góðum samtölum við Kára

Kári sagði í dag að frá og með deginum í dag mun hann hætta að eiga samskipti við landlækni og sóttvarnalækni. Spurður um hvort það verður haft frekari sam­band við Kára, segir Kjartan að hann býst við því.

„Ég vona sannar­lega að við munum eiga mikið af góðum sam­tölum við Kára í fram­tíðinni ég geri ráð fyrir því. Enda held ég að við skiljum á mjög góðum nótum, Kári og em­bætti land­læknis. En það hljómar af því sem hann hefur birt að þetta sé nokkuð af­dráttar­laust og hann hefur sínar á­stæður fyrir því og við verðum bara að virða það.“