Veður fer versnandi þegar líða tekur á kvöldið og gætu akstursskilyrði versnað töluvert í kvöld og á morgun. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sem heldur úti vefnum Blika.is, segir í samtali við Fréttablaðið að líklega verði slæm akstursskilyrði á Hellisheiði og í Þrengslum í kvöld.
„Það er lægð á leiðinni sem fer vestur fyrir landið og hún ber með sér mildara loft. Það hlýnar rækilega á landinu seinna í kvöld og í nótt. Það er nú þegar farið að hlýna hérna suðvestanlands en það er gert ráð fyrir því að það geti snjóað á Hellisheiði og Þrengslum eftir klukkan 20 í kvöld og fram að miðnætti. Það geta orðið erfið skilyrði út af blindu,“ segir Einar sem á ekki von á því að færð spillist þar sem lítill sem enginn snjór er fyrir á svæðinu.
„En það getur orðið blint því þessu fylgir allt að því stormur,“ segir hann.
Skammt stórra högga á milli
Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendið í kvöld og fram á morgun. Á þessum slóðum má gera ráð fyrir 18 til 28 metrum á sekúndu með éljagangi en meiri vindi í hviðum, einkum á Breiðafirði þar sem þær geta farið í 45 metra á sekúndu, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.
„Þetta hlýja loft gengur hratt yfir landið og í fyrramálið verður 5-7 stiga hiti fyrir norðan,“ segir Einar og bætir við að dálítil rigning fylgi. Versta veðrið ætti að ganga niður snemma í fyrramálið en það verður þó skammt stórra högga því fleiri viðvaranir eru í gildi frá hádegi á morgun.
Hvasst og blint í éljunum
„Síðan á morgun þá fáum við útsynningsloftið sem kemur á eftir kuldaskilunum, þá fáum við dálítinn éljagang,“ segir Einar og bætir við að þá muni snjóa á láglendi víða um land, einnig á höfuðborgarsvæðinu. „Það eru helst Norðaustur- og Austurland sem sleppa. Það er þannig með þessa suðvestanátt að hún verður dálítið hvöss seinni partinn á morgun og annað kvöld, sérstaklega verður hvasst og blint í éljunum og það á við um höfuðborgarsvæðið líka.“
Gular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra frá hádegi á morgun. Appelsínugular viðvaranir verða hins vegar áfram í gildi á Breiðafirði og Faxaflóa. Á höfuðborgarsvæðinu er til að mynda varað við dimmum éljum, hálku á götum og gangstéttum og mjög takmörkuðu skyggni á köflum.
Fyrsti hvellurinn
Einar á ekki von á því að mikil snjókoma fylgi heldur verði þetta snjófjúk að mestu og dimm él. „Þau ganga yfir á 10-15 mínútum en þetta verður dálítið leiðinlegt,“ segir hann. Hann bætir við að þetta sé í raun fyrsti hvellur vetrarins, ef svo má segja.
„Jú, það hafa gengið yfir okkur nokkrar haustlægðir en tíðin hefur verið tiltölulega blíð í haust. Það hefur verið lítið um illviðri og oft hæglátt veður. Það má alveg segja að þessi lægð núna markar ákveðin kaflaskil, það eru fleiri lægðir á leiðinni í næstu viku, reyndar ekki eins og þessi, en hver veit hvað gerist svo á aðventunni.“