Mjög mikill fjöldi fólks fer nú í gegnum Kefla­víkur­flug­völl en langar raðir hafa reglu­lega myndast þar sem mikið álag er á starfs­mönnum sem þurfa að ganga úr skugga um að allir séu með til­skilin vott­orð, svo sem bólu­setningar­vott­orð eða PCR-próf.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í gær var ör­tröð á flug­vellinum um miðjan dag þar sem komu­far­þegar sátu fastir í röð í lengri tíma og fyrir utan grímu­notkun far­þega var lítið um sótt­varna­ráð­stafanir. Jón Gnarr var á staðnum og sagði að um „skipu­lags­legt stór­slys“ væri að ræða.

Upp­lýsinga­full­trúi Isavia sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að um háanna­tíma væri að ræða og því margir á leið í gegnum flug­völlinn en gripið hefur verið til ýmissa að­gerða til þess að draga úr röðum á vellinum, til dæmis með að opna fyrir öryggis­leitina fyrr.

Ferðamönnum muni fjölga töluvert

Gert er ráð fyrir að ferða­mönnum muni fjölga á næstu misserum og því ljóst að meira álag verði á flug­vellinum. Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, segir að við­búið sé að á stærstu á­lags­tímunum verði mjög þétt á flug­vellinum. Búast má við að mörg þúsund manns muni fara í gegnum flug­völlinn dag­lega í ágúst og septem­ber.

„Þetta mun alla vega klár­lega ekki verða auð­veldara eftir þvi sem líður á ágúst, það er alveg ljóst,“ segir Jóhannes í sam­tali við Frétta­blaðið, að­spurður um hvort það muni ekki reynast erfiðara að takast á við stöðu mála á næstunni sam­hliða fjölgun ferða­manna.

Ekki bestu aðstæður út frá sóttvörnum

Að sögn Jóhannesar er lík­legt að á meðan tak­markanir eru á ferðum yfir landa­mæri eru í gildi megi gera ráð fyrir á­fram­haldandi töfum og segir hann flesta sem ferðast í dag vera með­vitaðir um það þar sem það er ekki eins­dæmi í Leifs­stöð og þekkist víða annars staðar.

„En það er bara ansi mis­munandi eftir því hvernig húsa­kosturinn er, hverjar tak­markanirnar eru, og hvernig þetta er allt saman sett upp,“ segir Jóhannes en hann segir að hér á landi sé það helst húsa­kosturinn sem þrengir að og því erfitt að leysa úr málinu.

Hann segir að þrátt fyrir að al­mennt geri far­þegar ráð fyrir töfum geti það engu að síður verið erfitt. „Það getur verið ansi frú­st­rerandi og náttúru­lega ekki bestu aðstæður út frá sótt­vörnum og öðru slíku, til dæmis fyrir barna­fjöl­skyldur að þurfa að bíða þarna kannski í einn tvo klukku­tíma í röð er aldrei heppi­legt eða skemmti­legt.“

Standa frammi fyrir takmörkunum

Jóhannes segist þó ekki hafa á­hyggjur af stöðu mála út frá ferða­þjónustu­rekstrinum heldur sé það aðal­lega vegna sótt­varna­ráð­stafanna. „Þetta kannski er eitt­hvað sem er ó­heppi­legast gagn­vart sótt­vörnunum þegar fjöldi fólks er að hrúgast saman á sama stað og þetta er auð­vitað kannski leiðin­leg upp­lifun fyrir alla sem þurfa að bíða svona.“

Hann vísar til þess að það sé á á­byrgð lög­reglunnar og heilsu­gæslunnar að hafa stjórn á því hvernig flæðið er á flug­vellinum og að Isavia hafi lengi reynt að gera það þannig að flæðið á flug­vellinum sé eins gott og mögu­legt er en þau standa þó frammi fyrir tak­mörkunum.

„Það eru tölu­verðar tak­markanir á hús­næðinu og hvernig það er hægt að gera þetta, þannig ég veit ekki hvort að miðað við nú­verandi tak­markanir sé hægt að laga þetta eitt­hvað. Það er eitt­hvað fyrir þessa aðila að skoða,“ segir Jóhannes.