Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður áfram með aukinn viðbúnað vegna þeirrar ólgu sem verið hefur í íslenskum undirheimum undanfarna daga. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Þetta verður enn þá í gangi næstu daga og síðan verður staðan endurmetin,“ segir hann og bætir við að staðan verði endurmetin eftir næstu helgi.
Helgin var tiltölulega róleg hjá lögreglu en á föstudag stakk grímuklæddur maður á dekk í nágrenni við miðbæinn. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að mögulegt sé að atvikið tengist öðrum þeirra hópa sem átt hafa í deilum og tengjast hnífstunguárás á Bankastræti Club á dögunum.
Þá var maður rændur í austurbænum og voru þar á ferð einstaklingar sem tengjast öðrum hópnum, að sögn Ásgeirs.
Fyrir helgi gengu skilaboð á milli fólks á samfélagsmiðlum þar sem fólk var hvatt til að halda sig heima vegna yfirvofandi hefndarárásar vegna atviksins á Bankastræti Club þar sem hátt í 30 einstaklingar ruddust inn og réðust að þremur mönnum.
„Þetta gekk vel. Þetta rættist ekki sem betur fer. Hótanirnar voru til þess gerðar að ala á ótta. Við gerðum okkar til þess að sýna að fólk geti komið í miðborgina ef það vildi, það væri allt í góðu lagi. Þessir aðgerðahópar sem við vorum með unnu síðan að málum sem komu upp um helgina,“ segir Ásgeir í Morgunblaðinu í dag.