Leit að fimm ára dreng sem varð viðskila við móður sína þegar flóð hreif með sér bifreið þeirra síðastliðinn mánudag hefur enn engan árangur borið.
Aftakaveður hefur verið í Kaliforníu og var neyðarástandi lýst yfir víða vegna vatnsveðurs og flóðahættu.
Móðir drengsins, Lyndsay Doan, var að skutla piltinum, Kyle Doan, í skólann síðastliðinn mánudag þegar hún ók yfir straumharða á sem hafði myndast og lá þvert yfir veginn. Hún missti stjórn á Chevrolet Traverse-jeppabifreið sinni og skorðaðist hún upp við tré fyrir neðan veg.
Lyndsay segir við bandaríska fjölmiðla að hún hafi ekið þessa leið daginn áður og þá hafi lítið vatn flætt yfir veginn.
Í frétt AP kemur fram að vatn hafi tekið að flæða inn í bílinn og Lyndsay séð þann kost vænstan að fara út úr bílnum. Náði hún taki á tré og hélt hún í son sinn með hinni höndinni sem hafði klifrað yfir í framsætið til að vera hjá móður sinni.
„Þetta verður allt í lagi, mamma. Vertu bara róleg,“ segir Lyndsay að Kyle hafi sagt við hana áður en hún missti takið á honum og straumurinn hreif hann með sér. Lyndsay segist hafa sleppt takinu á trénu en straumurinn gert henni ómögulegt að ná til sonar síns sem hvarf henni sjónum.
Umfangsmikil leit hefur verið gerð að Kyle en enn sem komið er hefur aðeins annar skórinn sem hann klæddist umræddan morgun fundist.